Sími 441 2360

spjaldtolvur@kopavogur.is

Markmið

Markmið spjaldtölvuverkefnis grunnskóla Kópavogsbæjar

Aðalmarkmið spjaldtölvuvæðingarinnar er að bæta skólastarf í Kópavogi þannig að árangur verði áfram í fremstu röð en áherslur breytist í takt við nýja tíma.


Markmið tengd námi:

 1. Námið sniðið betur að hverjum og einum
 2. Nemendur hafi meira um nám sitt að segja
 3. Meiri ánægja og áhugi á námi, aukin ábyrgð og bættur árangur
 4. Aukin fjölbreytni í námsumhverfi - nám á ferð og flugi
 5. Nám færist nær daglegum veruleika nemenda

Markmið tengd kennslu og skólastarfi:

 1. Meiri fjölbreytni í kennsluháttum
 2. Nýtum tæknina til að þróa skólana
 3. Stuðningur við markmið skóla án aðgreiningar, nemendur með sérþarfir í minna mæli aðgreindir frá bekk, sérkennsla færð inn í hópinn
 4. Stuðningur við sjálfstæði skóla þar sem hver skóli hefur sín leiðarljós

Markmið tengd bæði námi og kennslu, inntaki náms:

 1. Vægi sköpunar og nýsköpunar í námi aukið
 2. Aukin tæknikunnátta nemenda og kennara
 3. Bætt upplýsinga- og miðlalæsi nemenda, efling stafrænnar borgaravitundar
 4. Breyttir starfshættir skóla m.t.t. nýrrar Aðalnámskrár og krafna atvinnulífs 21. aldar um færni
 5. Breytt hlutverk í skólastarfi - nemandinn skapar þekkingu, kennari leiðbeinir og aðstoðar í stað þess að miðla þekkingu

Markmið tengd samfélaginu:

 1. Aukin samvinna milli skóla, milli nemenda, milli kennara og út fyrir Kópavog og Ísland
 2. Betri tengsl foreldra við nám nemenda og skólastarfið í heild

Hér er nánari upplýsingar um hugmyndafræðina.

Mælikvarðar og árangursviðmið


Markmið spjaldtölvuinnleiðingar í Kópavogi eru margþætt. Þau snúa að inntaki og framkvæmd kennslu, að viðhorfum nemenda, kennara og foreldra til skólastarfsins, að frammistöðu og árangri nemenda og þannig mætti áfram telja. Enginn einn mælikvarði nær yfir öll þessi markmið og ávallt er mikilvægt að hafa hugfast að breytingar, sem ætlað er að stuðla að framförum í skólastarfi, skila ekki endilega uppsveiflu ef mælingar taka mið af óbreyttum áherslum. 

Skólapúlsinn er mælitæki sem notast hefur verið við um árabil og hefur því þann kost að hægt er að bera saman niðurstöður fyrir og eftir innleiðingu. Könnun þessi er lögð árlega fyrir nemendur í 6. - 10. bekk en annað hvert ár fyrir foreldra og starfsfólk. Niðurstöður Skólapúlsins má nýta til að lesa í líðan og ánægju nemenda í skóla, hvort námið vekji áhuga þeirra og verkefni séu við hæfi og þar fram eftir götunum. Einnig má sjá hvort foreldrum finnist námsvinnan hæfilega krefjandi og hvort skólinn mæti þörfum barnsins. 

Samræmd könnunarpróf eru lögð fyrir árlega og gefa upplýsingar um stöðu nemenda í íslensku og stærðfræði. Varasamt getur verið að einblína á meðaleinkunnin árganga en á hinn bóginn má nýta niðurstöður prófanna til að meta námsframfarir nemendahópa milli ára. 

Sérsniðnar kannanir verða einnig lagðar fyrir nemendur, foreldra og kennara til þess að meta áhrif spjaldtölvuinnleiðingarinnar á ýmsa þætti er varða skólastarf, nám og kennslu. 

Einn-á-mann hugmyndafræðin

Þegar snjalltækni er innleidd í skólastarfi eru þrjár meginaðferðir algengastar. "Með eigin tæki" (e. Bring your own device) byggir á því að nemendur noti þau snjalltæki sem þeir eiga fyrir og er þá ýmist notast við síma eða spjaldtölvur. Önnur leið er að skólar eigi bekkjarsett sem nemendur fá að láni til skemmri tíma eða í einstaka verkefni. "Einn-á-mann" (e. One-to-one) er hins vegar sú leið sem skilar mestum árangri enda eru spjaldtölvur hugsaðar sem einstaklingstæki og hafa nýst vel til að stuðla að aukinni einstaklingsmiðun náms. Þessi nálgun krefst þess að hvert og eitt tæki sé notað af aðeins einum nemanda. Þannig geta nemendur sniðið notkun tækisins að sínum þörfum.

Evrópska skólanetið

Hvað höfum við í Kópavogi fyrir okkur að þetta brölt okkar skili árangri? Við höfum fyrst og fremst horft til Evrópu en árið 2010 setti Evrópusambandið sér stefnu til ársins 2020 til að bæta hagvöxt í ríkjum sambandsins. Menntun er einn af þeim þáttum sem eru hluti af þessari áætlun og í henni felst að það þurfi að gera grundvallar breytingar á menntun til að Evrópa geti verið samkeppnishæf og sigrast á efnahagslegum erfiðleikum. Nýsköpun í menntun og þjálfun er þar lykilatriði og til að ná settum markmiðum þá er það mat helstu menntunarfræðinga og hagsmunaaðila að upplýsingatækni sér þar lykilþáttur.

Með þetta að leiðarljósi gerði Evrópska skólanetið (European Schoolnet) ítarlega skoðun á 31 innleiðingarstefnu í 19 Evrópulöndum þar sem 1:1 kennsluhættir (ein tölva á hvern nemanda) í 47 þúsund skólum voru skoðaðir sérstaklega og gefin út skýrsla í kjölfarið.

Einnig var gefinn út handhægur bæklingur um hvernig best sé að standa að innleiðingu á 1:1 kennsluháttum sem við í Kópavogi höfum m.a. haft að leiðarljósi.

Hér eru fleiri rannsóknir sem sýna hvernig spjaldtölvur bæta skólastarf.Þetta vefsvæði byggir á Eplica