Öpp eru í stuttu máli smáforrit sem notuð eru í spjaldtölvum og snjallsímum. Orðið app er komið af enska orðinu application og í iPad spjaldtölvum eru þau sótt í gegnum netið á App Store.

Gott er að hafa í huga að breyttir kennsluhættir snúast ekki um öppin og hvað þau gera heldur að nýta tæknina til að gera nám og kennslu merkingarbærari og fjölbreyttari. Öppin eru fyrst og fremst stuðningstæki eða vörður á þeirri leið. App sem slíkt er ekki forsenda breyttra kennsluhátta. Forsenda breyttra kennsluhátta er að kennarar komist úr fastmótaðri hugsun um kennsluhætti. Þegar sá árangur næst má gera róttækar breytingar. Breytingar sem í stuttu máli má greina í sex þrep:

Þau eru:

  1. kennarinn upplifir óljósan en vaxandi skilning varðandi notkun og möguleika
  2. lærdómsferli á sér stað
  3. skilningur vex á möguleikum og notkun
  4. þekking vex og sjálfstraust varðandi notkun
  5. kennari fer að beita nýfenginni þekkingu undir breyttum kringumstæðum og nýjum viðfangsefnum
  6. kennarinn fer að fara nýjar slóðir með frumlegum og skapandi hætti.

Í App Store eru yfir tvær milljónir appa svo það er ógerlegt að ætla að renna yfir þann lista en hér vinstra megin má finna umfjöllun og leiðbeiningar um öpp sem hafa nýst vel í skólastarfi í Kópavogi. Sum öpp kosta á meðan önnur eru frí og má skipta þeim í eftirfarandi flokka:

  • Appið er frítt og engar auglýsingar (t.d. Google öppin)
  • Appið er frítt en með auglýsingum
  • Appið er frítt en möguleikar takmarkaðir. Hægt að borga fyrir fleiri möguleika (in app purchase)
  • Appið kostar – eingreiðsla
  • Appið kostar – áskrift (yfirleitt viku eða mánaðarlegar greiðslur)

Ef kennari óskar eftir að fá keypt app fyrir sig eða nemendur sína þá hefur hann samband við deildarstjóra í upplýsingatækni í sínum skóla.

Í iPad spjaldtölvunni fylgja nokkur öpp sem kosta ekkert en þau eru Pages, Numbers, Keynote, iMovie og GarageBand. Þau eiga að vera í öllum spjaldtölvunum en annars geta kennarar og nemendur í 8.-10. bekk hlaðið þeim niður í App Store. 

App Store er lokað hjá nemendum í 1.-7. bekk en þeir geta náð í öpp í App Portal sem er í spjaldtölvum þeirra.

Pages er ritvinnsluforrit líkt og Word.

Numbers er töflureiknir svipað og Excel.

Keynote er glærugerðarforrit svipað og Power Point.

iMovie er notað til að búa til myndbönd. Hægt að klippa, setja inn texta og tónlist.

GarageBand er notað til að búa til tónlist.

Nánar má fræðast um hugmyndafræði Apple í skólastarfi hér.

Allir grunnskólar í Kópavogi hafa aðgang að Google umhverfinu svo sem Drive og Classroom en nánar er fjallað um það í sérstökum kafla á síðunni Leiðbeiningar kennarar.


Uppfært í júní 2022