Sími 441 2360

spjaldtolvur@kopavogur.is

Fréttir

Annar hluti ferðasögu spjaldtölvuteymis til Danmerkur og Eistlands, mars 2017

Söndervangskolen í Århus í Danmörku

3.4.2017

Síðari skólinn sem heimsóttur var í Danmörku er grunnskóli í úthverfi Århus þar sem 97% nemenda eru af erlendu bergi brotnir og tala annað móðurmál en dönsku. Flestar fjölskyldur í skólasamfélaginu koma frá Afganistan eða Sómalíu en alls eru nemendur af yfir tuttugu ólíkum þjóðernum. Skólastjórinn hefur starfað við skólann í níu ár og tók við honum í mikilli niðurníðslu. Tekist hefur að bæta skólabrag, námsárangur og ímynd skólans á undraverðan hátt á nokkrum árum, meðal annars fyrir tilstilli tækninnar. Skólastjórinn telst Íslandsvinur, því hann tók þátt í vinnudegi fyrir skólastjórnendur sem haldinn var á vegum Apple í Hörpu í júní 2016.

Það sem helst stendur uppúr eftir heimsókn í þennan skóla er hversu skýra sýn skólastjórinn hefur og tjáir við starfsfólk jafnt sem nemendur, um hvert skólinn skuli stefna. Nemendur vita til hvers er ætlast af þeim og kennarar sömuleiðis, þeir sem ekki eru sammála þeirri stefnu skólans að veðja á tæknina til að bæta skólastarfið eru einfaldlega hvattir til að starfa annars staðar. Skólastjóri lítur á það sem skýlausan rétt sinn að kennarar séu dregnir til ábyrgðar vegna þeirrar fjárfestingar sem skólinn hefur lagt í þá. 

Líkt og í VUC Syd er mikil áhersla lögð á fjölbreytt vinnurými nemenda, en aðstæður eru ólíkar því um er að ræða gamalt, hefðbundið skólahúsnæði sem ekki er hannað með nútíma skólastarf í huga. Farin hefur verið sú leið að hólfa skólatofur niður í smærri rými, þar sem eru ýmist hópvinnuaðstaða, næðiskrókur eða rými til kynninga og innlagna. Athygli vakti að glæsileg og vönduð leiktæki prýða ganga skólans, en markmið þeirra er að hvetja nemendur til að stunda hreyfingu á ferð sinni um skólann. Sannarlega hugmynd sem mætti nýta í skólum Kópavogs, þar sem kennurum, foreldrum og stundum einnig nemendum finnst að of miklum tíma sé varið í kyrrsetu með spjaldtölvu í fanginu.

Breytingar á vinnurýmum hafa í þessum skóla einnig kallað á endurskoðun stundatöflunnar þótt ekki sé þróun komin jafn langt og í VUC Syd. Hefðbundin stundatafla er ekki við lýði nema lítinn hluta skólaársins, þess á milli eru nemendur að vinna samþætt þemaverkefni þar sem námsmarkmið margra námsgreina eru undir. Allar þessar breytingar reyna mjög á kennara sem hafa þurft að tileinka sér ný vinnubrögð á skömmum tíma. Stuðningur við kennara er talsverður, kennsluráðgjafar heimsækja skólann á tveggja vikna fresti til að halda námskeið og veita kennurum handleiðslu.

Hér eru myndir frá heimsókninni:

https://www.flickr.com/photos/kopspjold/albums/72157678520711444

Hér er fyrsti hluti ferðasögunnar.

Hér er þriðji hluti ferðasögunnar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica