Sími 441 2360

spjaldtolvur@kopavogur.is

Fréttir

Ferð spjaldtölvuteymis í skólaheimsóknir í Danmörku og Eistlandi, mars 2017

Hér er fyrsti hluti ferðasögunnar sem er um framhaldsskólann VUC Syd

31.3.2017

Starfsmenn spjaldtölvuverkefnis grunnskóla heimsóttu tvo danska og einn eistneskan skóla sem allir eiga það sameiginlegt að hafa náð árangri í tæknivæðingu skólastarfsins. Hópurinn samanstóð af verkefnastjóra og þremur kennsluráðgjöfum en í Danmerkurhluta ferðarinnar var einnig tæknistjóri spjaldtölvuverkefnis með í för, auk tveggja kennara frá Brekkuskóla á Akureyri og fulltrúa frá Epli.

Aðdragandi

Kveikjuna að þessari ferð má að talsverðu leyti rekja til fyrri Danmerkurferðar, þegar fjölmennur hópur frá Kópavogi heimsótti sveitarfélagið Odder á Jótlandi í nóvember 2015. Gestgjafar okkar í þeirri heimsókn höfðu á orði að gagnlegt væri fyrir okkur að kynna okkur skólastarf í tveimur öðrum byggðarlögum á Jótlandi og voru þar nefndir Söndenvangsskolen í Århus og VUC Syd í Haderslev. Einnig lýstu sömu gestgjafar á þessum tíma áhuga á frekara samstarfi við Kópavogsbæ í tengslum við innleiðingu spjaldtölva og breytingu kennsluhátta. Ferðin til Odder 2015 var styrkt af Erasmus+ og hefur Kópavogsbær verið hvattur til þess af Rannís, sem sér um Erasmus+ á Íslandi, að sækja um frekari styrki til samstarfs við erlenda aðila. Var verkefnastjóra spjaldtölvuverkefnis boðið að segja frá verkefninu á tengslaráðstefnu um upplýsingatækni í skólastarfi sem haldin var í Reykjavík í nóvember 2016, en markmið slíkrar ráðstefnu er meðal annars að leiða saman fagaðila í ólíkum löndum sem gætu haft áhuga á samstarfi. Á umræddri ráðstefnu lýsti fulltrúi frá Pelgulinna Gümnaasium í Tallinn áhuga á samstarfi við Kópavogsbæ og hófust þá viðræður um hugsanlegt þrí- eða fjórhliða samstarf.

Í lok mars 2017 var send umsókn um svokallaðan „Partnership“ styrk hjá Erasmus+ verkefninu, þar sem lögð er upp tveggja ára dagskrá samstarfsverkefnis þriggja landa. Ef styrkur fæst mun Kópavogsbær því eiga þess kost að senda fulltrúa í náms- og kynnisferðir til Danmerkur og Eistlands en skuldbindur sig til að bjóða hingað til lands fulltrúum hinna landanna.

VUC Syd

Fyrsti skólinn sem heimsóttur var í þessari ferð er fyrir nemendur á framhaldsskólaaldri og þaðan af eldri, sem hafa flosnað upp úr skólanámi. Sumir hafa ekki verið í skóla árum saman og eiga það sameiginlegt að hafa átt neikvæða upplifun af skólagöngu. Algeng lýsing nemendanna á sinni fyrri skólagöngu er að þeir hafi aldrei passað inn í skólaumhverfið. Svar skólans er að hér sé það skólinn sem eigi að laga sig að þörfum nemendanna, ekki öfugt.

Mikið er lagt upp úr því að búa til notalegan og góðan vinnustað fyrir nemendur og kennara. Skólabyggingin sjálf er gríðarleg fjárfesting og hafði einn kennari það á orði að gestir frá Bandaríkjunum furðuðu sig einmitt á því að Danir væru að eyða svona miklum peningum í „dropouts“ – það er út af fyrir sig áhugaverð menntapólitísk afstaða sem vert er að gefa gaum. Ungt, ómenntað fólk sem áður fór í láglaunastörf, störf sem nú eru horfin, lifa á bótum og eru samfélaginu mjög dýr. Það er áhugaverð afstaða að betra sé að fjárfesta í að koma þessum þjóðfélagshópi til mennta og út á vinnumarkaðinn, oft í sérhæfð og vel launuð störf í tæknigeiranum, enda skólinn afar vel tæknivæddur. Skólinn er á fimm hæðum og brattir stigar á milli hæða sem eru hugsaðir í þeim tilgangi að nemendur fái hreyfingu. Einnig er gengt út á svalir úr öllum kennslurýmum, svalir sem liggja hringinn í kringum húsið og því er alltaf auðvelt að færa kennsluna út undir bert loft.

Glerveggir eru áberandi, bæði til þess að birta að utan nái í gegnum bygginguna en einnig þjónar það þeim tilgangi að kennarar eiga auðvelt með að fylgjast með nemendum um allt hús, en kennsluhættir byggja alls ekki á mikilli samveru kennara og nemendahóps í lokuðu rými. Frekar er farin sú leið að kennari hittir nemendahóp, annað hvort í kennslustofu eða næðisrými, útskýrir verkefni fyrir nemendum og sendir þá síðan af stað í vinnu. Þá geta nemendur komið sér fyrir þar sem hentar, en nóg er af lokuðum (gegnsæjum) næðisrýmum með hópvinnuborðum og einnig eru hópvinnuborð á opnum svæðum. Nemendur hittast svo að lokinni vinnutörn með kennara, sem fer yfir það sem nemendur hafa gert, gefur endurgjöf og sendir nemendur eftir atvikum aftur af stað í vinnu til að halda áfram, nema verki sé lokið.

Eins og greina má af framantöldu er sjálft skólahúsið hannað með óhefðbundna kennsluhætti í huga. Gestgjafar okkar sögðu frá því að það hefði auðveldað mjög vinnu við að breyta kennsluháttum að skólabyggingin væri ekki hólfuð niður í lokuð rými þar sem kennarinn er í öndvegi og nemendur snúa allir í átt að honum og töflunni. Reyndar var áhugavert að engar töflur voru neins staðar í þessum skóla. En þegar skólastarfið var komið á flug með breyttum kennsluháttum fundu kennarar fyrir því að námsefni skorti sem hentaði þessum kennsluháttum. Námsbækur eru enn miðaðar við hefðbundna kennslu, þar sem nemendum er skipt í hópa eftir aldri, vinnu þeirra skipt niður í stuttar kennslustundir þar sem ein kennslugrein er tekin fyrir í einu. Námsbókin er því fyrst og fremst hönnuð með það í huga að hún innihaldi það sem meðalnemandi á að komast yfir á einu ári í enni námsgrein. Hér eru verkefnin styttri og mjög oft samþætt, þ.e. námsmarkmið margra ólíkra námsgreina er að finna í hverju verkefni. Því var ákveðið að hér þyrftu kennarar sjálfir að útbúa sitt námsefni. Á hverju ári eru um 16-18 kennarar sem sinna námsefnisgerð í hálfu starfi á móti kennslu. Þeir útbúa rafbækur sem mega að hámarki vera tíu blaðsíður og á hverri síðu þarf að vera verkefni fyrir nemendur, auk lesefnis, mynda, myndbanda og tengla á ítarefni. Dagana sem þessir kennarar eru í kennslu nota þeir svo til að prófa námsefnið og sníða af því vankanta áður en það er gefið út.

Rúsínan í pylsuendanum í þessari heimsókn var svo nýjasta viðbótin við skólann, sem hefur hlotið nafnið Flow Factory. Hér eru nýir kennsluhættir teknir enn lengra en í VUC, en nemendur vinna hér í um það bil sex vikna vinnulotum að einu afmörkuðu verkefni í senn. Stundatöflur eru engar, nemendur fá vandamál að glíma við – oft eru það sveitarfélagið eða fyrirtæki í nærsamfélaginu sem leggja vandamálið til – og vinna að heildstæðri lausn sem síðan er kynnt fyrir „viðskiptavininum“ – dæmi um verkefni sem unnin hafa verið eru tillögur að nýju hverfisskipulagi, aukin sjálfbærni í orkunýtingu og þar fram eftir götunum.

Hér eru myndir frá heimsókninni.

https://www.flickr.com/photos/kopspjold/albums/72157681917112335

Hér er annar hluti ferðasögunnar.

Hér er þriðji hluti ferðasögunnar.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica