Sími 441 2360

spjaldtolvur@kopavogur.is

Fréttir

Þriðji og síðasti hluti ferðasögu spjaldtölvuteymis til Danmerkur og Eistlands, mars 2017

Pelgulinna Gümnaasium í Tallin

19.4.2017

Heimsóknin til Tallinn var ekki síður áhugaverð þótt samfélagið þar og skólakerfið sé nokkuð ólíkt því danska og íslenska. Við heimsóttum skólann á 105 ára afmælisdeginum og var skólastarf því ekki í sínum allra föstustu skorðum. Alls staðar voru nemendur að vinna að ýmiskonar listgreinaverkefnum og má þar nefna hannyrðir sem selja átti á uppboði á afmælishátíðinni, smíðanemendur sem höfðu útbúið ansi raunverulegar leikfangabyssur (málaðar hvítar í öryggisskyni), reiðhjól sem nemendur höfðu hannað og smíðað og ýmislegt fleira. Einnig vorum við svo heppin að fá hóp nemenda til að syngja fyrir okkur eistneskt þjóðlag.

Eistland tók snemma eftir sjáfstæðisyfirlýsingu þá ákvörðun að veðja á tölvutækni í menntun og atvinnulífi. Ekki vita margir að forritunin á bak við Skype er verk eistneskra forritara, svo dæmi sé nefnt. Upplýsingatækni er nýtt í kennslu allra námsgreina en einnig sem sérstök námsgrein. Við heimsóttum tölvustofu sem virkaði fornfáleg í okkar augum, enda voru borðtölvur af öllum stærðum og gerðum og flestar í eldri kantinum. Þar sátu kornungir nemendur og hönnuðu lítil plastleikföng til prentunar í þrívíddarprentara.

Aðalnámskrá Eistlands inniheldur talsverðan sveigjanleika að sögn gestgjafa okkar. Hún inniheldur tilmæli til skóla um að hinum og þessum námsgreinum sé sinnt upp að tilteknu marki, en skólar geta ákveðið áherslur hver fyrir sig. Hér var gengið lengra í nýtingu upplýsingatækni en víðast annars staðar í landinu. Sem dæmi má nefna að kennsla í netöryggi og stafrænni borgaravitund ætti helst ekki að hefjast síðar en í fjórða bekk samkvæmt aðalnámskrá, en hér er byrjað strax í fyrsta bekk. Er það vegna þess að með aukinni nýtingu tækninnar í skólanum sést strax að þörf er á að sinna þessum þætti án tafar.

Svipuð lausn hafði verið fundin í þessum skóla á þeim „vanda“ að nemendur nýti snjalltæki sín til afþreyingar á göngum skólans í frímínútum. Hér voru þó ekki sömu peningaupphæðir til að spila úr og voru „leiktækin“ því máluð á veggi og gólf. Leikur er mikið nýttur sem námsaðferð, meðal annars var okkur sýnt dæmi um tvo námsleiki sem nýttir eru í kennslu um netöryggi.

Hér eru myndir frá heimsókninni.

https://www.flickr.com/photos/kopspjold/albums/72157680197792820

Samantekt

Meginmarkmið þessarar ferðar var að starfsmenn spjaldtölvuverkefnis grunnskóla sæktu sér innblástur og þekkingu frá aðilum sem lengra eru komnir á þeirri braut sem við erum á. Óhætt er að fullyrða að þessu markmiði hafi verið náð. Einnig var rætt við þessa aðila um möguleika á áframhaldandi samstarfi og reyndist í öllum tilvikum vera áhugi fyrir því. Næsta skref er að sækja um styrk til samstarfsverkefnis til tveggja ára og fáist fjármagn úr þeirri átt er mikilvægt að dyggilega sé stutt við samstarfið, að allir skólar taki þátt og séu tilbúnir að ráðstafa sínu besta fólki í það.

Ánægjuleg aukaafurð ferðarinnar var sú sterka upplifun hópsins að við séum á réttri leið með okkar verkefni, engin ástæða sé til þess að hika eða slá af, heldur leggjast frekar fastar á árar. Nú þegar styttist í að þriðja skólaár innleiðingarinnar gangi í garð er eðlilegt að auknar kröfur séu gerðar til skólastjórnenda og kennara. Aðlögunartíminn er senn á enda og enginn ætti lengur að velkjast í vafa um að átak í breyttum kennsluháttum sé komið til að vera.

Fyrsti hluti ferðasögunnar hér.

Annar hluti ferðasögunnar hér.Þetta vefsvæði byggir á Eplica