Bekkjarsáttmáli 1.- 4. bekkur

Allir nemendur í 1.- 4. bekk hafa annað hvort aðgang að spjaldtölvum í bekkjarsettum eða spjaldtölvu til einkanota. Nauðsynlegt er að hafa umgengnisreglur og mælt er með því að þær séu samdar í samtali og samstarfi við nemendur. Þessar leiðbeiningar eru hugsaðar sem grunnur að slíkum reglum og í þeim er farið er yfir myndatökur og myndbirtingar, virðingu fyrir spjaldtölvum annarra og hver ræður notkuninni í kennslustofunni. Þessar reglur, sem við kjósum að nefna bekkjarsáttmála, mega standa einar sér eða fléttast inn í bekkjar- eða skólareglur eða aðra sáttmála sem bekkurinn gerir.


Markmið með sáttmálanum:

• Að nemendur íhugi hvað sé rétt og ábyrg notkun spjaldtölva og annarrar tækni

• Að nemendur sammælist um að spjaldtölvur séu notaðar á ábyrgan og skynsamlegan hátt í bekknum 

• Að nemendur ræði þessi mál við foreldra sína 

Undirbúningur kennarans:

Kennari metur það með tilliti til aldurs og þroska nemenda hvort hann ræðir þessi mál við bekkinn í heild eða skiptir honum upp í hópa. Mikilvægt er að kennari taki afstöðu til þeirra þátta er lúta að spjaldtölvunotkun og kynni sér ennfremur hvaða viðhorf séu ríkjandi í skólanum áður en umræður hefjast.

Þeir skólar sem eru með Uppeldi til ábyrgðar tengja sáttmálann við bekkjarsáttmála Uppbyggingarstefnunnar.

Eftir umræðurnar tekur kennari saman reglurnar, prentar þær út og hengir upp í kennslustofunni og í öðrum rýmum þar sem nemendur nota spjaldtölvur í námi. Einnig er upplagt að taka mynd af þeim og setja í Seesaw eða gera aðgengilegar nemendum með öðrum rafrænum hætti.

Tilvalið er að senda reglurnar til foreldra (tölvupóstur og/eða Seesaw) og hvetja þá til að ræða þessi mál við börnin sín.


Hér eru spurningar sem hægt er að styðjast við sem kveikjur að umræðum:

1. Myndatökur og myndbirtingar

Nemandi getur notað spjaldtölvuna til að taka myndir af kennara eða öðrum nemendum og birt hana á netinu.

Hvaða reglu viljum við hafa um það í okkar bekk?

2. Aðgangs- og lykilorð

Nemendur hafa sín eigin aðgangs- og lykilorð í bekkjarsettum sem þau verða að passa vel upp á. 

Hvaða reglu viljum við hafa um það í okkar bekk?

3. Virðing fyrir öðrum nemendum

Nemandi getur fiktað í verkefnum í spjaldtölvu annars nemanda ef hún er ólæst. 

Hvaða reglu viljum við hafa um það í okkar bekk?

4. Virðing fyrir spjaldtölvunni

Spjaldtölva getur skemmst ef ekki er farið vel með hana.

Hvaða reglu viljum við hafa um það í okkar bekk?

5. Notkun í kennslustund

Kennari ætti að ráða hvenær spjaldtölvan er notuð í kennslustund og hvaða öpp eru notuð. Sama gildir hvað varðar hvaða vefsíður eru nýttar.

Hvaða reglu viljum við hafa um það í okkar bekk?


Uppfært í júní 2021