Hér eru birtar spurningar sem berast á netfangið spjaldtolvur@kopavogur.is og svör við þeim.

Spurningar og svör – foreldrar:

Ég er foreldri í 5. bekk í einum af grunnskólum Kópavogs. Þar hefur verið tekin ákvörðun um að spjaldtölvurnar megi ekki fara heim með börnunum. Ég er alls ekki sammála þessari ákvörðun og finnst raunar að verið sé að mismuna börnunum eftir því í hvaða skóla þau eru.

Á eldra barn, í 9. bekk, sem fékk sína tölvu heim og það hefur ekki valdið neinum vandræðum. Ég hef bara sett reglur sem gilda um þetta tæki.

Hver er afstaða Kópavogsbæjar í þessu?

Afstaða Kópavogsbæjar er alveg skýr. Öllum nemendum skal gert kleift að nota spjaldtölvur bæði í skólanum og utan hans.

Nú í haust er verið að afhenda spjaldtölvur til fimmtubekkinga í þriðja sinn. Eftir fyrstu slíka afhendingu haustið 2016 bárust þó nokkrar athugasemdir frá foreldrum sem þóttu nemendur ekki ráða nógu vel við að hafa stjórn á spjaldtölvunotkun sinni, þetta var algengast í byrjun þess skólaárs en minnkaði talsvert þegar leið á veturinn. Í fyrra var ákveðið að taka tillit til þessara sjónarmiða og geyma spjaldtölvurnar í skólanum fyrstu vikurnar. Viðbrögð foreldra við þessari breytingu voru afar jákvæð og var því ákveðið að gera þetta á sama hátt nú í haust.

Hugsanlega hefur þetta valdið misskilningi hjá einhverjum nemendum, sem kunna að hafa búist við að fara heim með spjaldtölvurnar strax í gær.


Er hægt að takmarka aðgang nemenda að YouTube? Þar er margt gott og fróðlegt að finna en einnig margt sem er ekki hollt fyrir unga nemendur.

Meðan spjaldtölva er tengd þráðlausu neti í grunnskóla í Kópavogi er hún varin gegn óæskilegu efni sem ekki hæfir aldri nemandans. Foreldrar geta gert ráðstafanir heima fyrir, en þráðlausar nettengingar á heimilum er hægt að stilla þannig að börnin komist ekki í efni sem þau hafa ekki aldur til að sjá.

Einnig má finna kennslumyndbönd um ýmsar stillingar í spjaldtölvunni á leiðbeiningarsíðunni fyrir foreldra.


Hver getur beðið um að fá staðsetningu tölvunnar? Hver hefur leyfi til að rekja tölvuna, hefur sá sem er með það leyfi skrifað undir einhverskonar trúnaðarskilmála og hvort að við foreldrar fáum vitneskju um það hvort verið sé að rekja tölvuna?
Dæmi sem gæti komið væri ef ég tilkynnti að barnið væri veikt í nokkra daga.  Kennari grunar að barnið sé ekki veikt heldur í fríi í bústað.  Má kennari láta rekja tækið án beiðni frá foreldri?

Staðsetning tölvunnar verður eingöngu könnuð ef hún týnist eða er stolið. Í slíkum tilfellum á að tilkynna hvarf tækis tafarlaust til skóla og er litið svo á að í slíkri tilkynningu felist samþykki þess að starfsfólk aðstoði við leit að tækinu.
Vinnureglur varðandi stolin eða týnd tæki eru skýrar. Foreldrar skulu alltaf upplýstir. Sá sem tilkynnir glatað tæki hefur hingað til alltaf verið nemandinn sjálfur. Atvikið er þá skráð í mentor og foreldrum gert viðvart. Síðan er reynt að finna tækið og oftast er það gert í samstarfi við nemandann, sem skráir sig þá inn á www.icloud.com að viðstöddum starfsmanni og reynir að rekja tækið þannig.
Það er síðan af og frá að kennari geti óskað eftir rakningu tækis hjá nemanda í veikindaleyfi. Slík beiðni yrði aldrei samþykkt. Tæknilega væri hún líka þannig séð gagnslaus því staðsetning tækis sannar ekki staðsetningu barns.


Mega nemendur nota amerískt AppleID?

Já það er ekki gerð athugasemd við það að nemandi noti eigið AppleID þótt nemendum á miðstigi sé úthlutað slíku frá skóla. Þegar skóli úthlutar appi til nemanda þarf hann hins vegar að vera skráður inn á íslenskt AppleID til að geta sótt appið. Ef nemandi er að nota eigið AppleID samhliða því sem skóli úthlutar ber hann ábyrgð á inn- og útskráningu eftir því sem þörf krefur.


Nemendum býðst að eignast spjaldtölvuna með mánaðarlegri greiðslu. Er hægt að taka ákvörðun um það þegar nemandi hættir í skólanum og greiða þá alla upphæðina í lokin?

Já, þetta væri hægt en nemandi myndi þó alltaf skila tæki yfir sumartímann þangað til óskað væri eftir kaupum.


Er hægt að snúa ákvörðun um að eignast tækið einhvertíman áður en skólagöngunni lýkur. Ef svo, verður þá það fé sem greitt hefur verið inná tækið endurgreitt?

Nei. Ákvörðun um kaup á spjaldtölvu er bindandi.


Ef nemandi vill kaupa sér lyklaborð sem er líka hulstur. Er eitthvað því til fyrirstöðu að geyma orginal hulstrið og nota annað á meðan?

Nei, í rauninni ekki en okkur þætti æskilegra að nemandi sem kýs að nota annað hulstur en það sem er afhent með tækinu skili því síðarnefnda svo það geti nýst öðrum nemanda.


Eru gögnin í skýjum vistuð á öruggum og viðurkenndum stöðum?

Já. Skýjalausnir Google, Showbie og Seesaw eru öruggar.

Um Google

Um Showbie

Um Seesaw


Hvað er þetta Lightspeed? Ætlar Kópavogsbær að fylgjast með allri notkun barnsins míns?

Með Lightspeed verður skólum gert kleift að dreifa námsefni og öppum til nemenda og kennara miðlægt.  Með Lightspeed verður hægt að uppfæra stýrikerfi og hugbúnað á einfaldan og þægilegan máta.  Ef tæki týnist er hægt að rekja ferðir þess og ef tækinu er stolið er hægt að gera það ónothæft og eyða af því gögnum.

Notkun á hugbúnaðinum snýst því fyrst og fremst um umsýslu og þjónustu, að gera utanumhald einfaldara og skilvirkara.

Notkun á Lightspeed snýst ekki um einhverskonar rafræna vöktun eða annað sem snýr að persónulegum þáttum.  Um er að ræða umsýslu sem snýr að málefnalegum tilgangi, það er að þjónusta nemendur, kennara og foreldra.  Spjaldtölvurnar eru fyrst og fremst námstæki og til að þau þjóni tilgangi sínum þarf utanumhald.  Þar sem Kópavogsbær er eigandi tækjanna sinnir tölvudeild Kópavogs því miðlægt í stað þess að þjónusta eina og eina spjaldtölvu.

Um Lightspeed

Sjá nánar á vef Persónuverndar.


Símarnir eru mikið notaðir í samskiptasíður og leiki, verður það hægt í spjaldtölvum skólanna?

Spjaldtölvurnar sem nemendur fá afhentar verður hægt að nota til afþreyingar, eins og að fara á samskiptasíður á netinu og einnig munu nemendur – í samráði við foreldra – hafa möguleika á að ná sér í leiki.


Þurfa nemendur að útvega hulstrin sjálfir og lyklaborð á spjaldtölvur?

Nemendur munu fá hulstur með spjaldtölvunum þegar þær verða afhentar. Það er Kópavogsbær sem útvegar hulstrin. Lyklaborð eru i flestum tilvikum ekki nauðsynleg með spjaldtölvum.


Hvers er ábyrgðin hjá þeim sem fá spjaldtölvu til einkanota ef hún bilar eða skemmist í umsjón nemandans?  Er nemandinn skaðabótaskyldur gangvart skólanum ef spjaldtölvan skemmist?

Í raun gildir sama um spjaldtölvur og annan tæknibúnað í eigu skóla, sem nemendur nota. Bilanir eða skemmdir verða ekki til þess að mynda skaðabótaskyldu nema um sé að ræða vísvitandi skemmdarverk eða þjófnað af hálfu nemandans.

Nánari upplýsingar um tjón og skemmdir hér.


Eru menn 100% á því að spjaldtölvur og tilheyrandi þráðlaus net (WiFi) muni ekki valda börnunum skaða?    Svo virðist sem vísindamenn víða um veröld hafi vaxandi áhyggjur af slæmum áhrifum þessara tækja á líkamsstarfsemi, sérstaklega slæmum áhrifum á börn.

Uppsetning og frágangur á þráðlausu neti (WiFi) í grunnskólum Kópavogs er í einu og öllu eftir lögum og reglum sem um það gilda. Allur búnaður uppfyllir einnig öryggiskröfur Evrópusambandsins. Samkvæmt nýjustu rannsóknum bendir ekkert til þess að þráðlaust net sé hættulegt börnum eða unglingum. Rafsegulsviðsmælingar í skólum sem gerðar voru í Kópavogi á árinu 2014 leiddu í ljós að styrkur sviðanna var mjög lítill og langt innan við alþjóðleg viðmiðunarmörk. Sjá nánar hér og hér.

Ítarefni um geislun og þráðlaust net:

Farsímar, sendimöstur, rafsegulsvið frá Geislavörnum ríkisins

Lög um geislavarnir

Um skaðsemi þráðlauss nets, súrsaðs grænmetis og annarra hættulegra efna eftir Tryggva Thayer háskólakennara

FINAL OPINION ON EMF. Umsögn ESB um rafsegulbylgjur

Heimasíða EMF and Health


Ég var að fá boð um iPad námskeið frá skóla barnanna minna. Þar er talað um að foreldrar eigi að mæta með iPad barnanna sinna. Hvernig á það að virka? Er ætlast til þess að við fáum aðgangsupplýsingar barnanna að iPadinum og þar með aðgang að öllu sem þar er vistað? Hvað með Facebook, Snapchat, tölvupóst og allt það? Er ætlast til þess að krakkarnir fjarlægi allt slíkt eða er reiknað með að foreldrar hafi óheftan aðgang að þessum þessum gögnum barna sinna?

Nemendur hafa leyfi til að nota spjaldtölvurnar í frítíma sínum, hlaða niður hugbúnaði og eiga í samskiptum án þess að fylgst sé sérstaklega með því. Það er hlutverk foreldra að setja reglur og mörk um notkun tækjanna heima fyrir.
Sumir þeirra miðla sem þú nefnir eru bundnir þeim skilmálum að flestir nemenda sem hafa fengið spjaldtölvur afhentar í Kópavogi hafa ekki aldur til að nota þá. Af þeim ástæðum er það mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um hvað börnin hafa á tækjunum og ræða það við þau.
Ef á tækjunum eru samskipti sem nemendur vilja ekki að foreldrar sjái eru í raun tvær leiðir færar fyrir nemandann. Hann getur farið fram á það við foreldri að foreldrið láti vera að hnýstast í tölvupóst og spjallforrit, eða skráð sig út af aðgangi sínum í viðkomandi forritum. Í hvoru tilvikinu um sig er það mál sem nemandi og foreldri þurfa að ákveða í sameiningu.


Spurningar og svör – kennarar

Snara.is virkar bara í PC tölvum í skólum en ekki í iPad. Hvað veldur?

Snara.is á að virka í iPad svo framarlega sem hann er tengdur við þráðlaust net Kópavogsbæjar.


Hvernig verður uppsetning á forritum?

Hver og einn notandi getur svo nálgast hvaða ókeypis öpp sem er í gegnum App Store. Hægt er að kaupa forrit til eigin nota með því að gefa upp greiðslukortanúmer í App Store og er hverjum og einum það heimilt sé þess óskað.

Einnig verður hægt að kaupa forrit á tæki kennara og nemenda, annað hvort einstaklingsbundið eða eftir hópum. Í þeim tilvikum þarf að leita til skólastjóra um samþykki fyrir kaupunum.

Í sumum tilvikum er forritum dreift á tæki gegnum tölvupóst. Notandi fær þá tölvupóst með hlekk sem smellt er á, leiðbeiningum fylgt og forrit hleðst þá niður í tækið.

Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að dreifa öppum með Lighspeed umsýslukerfinu og þá þarf notandinn stundum að slá inn Apple ID lykilorð.


Hvernig með H: drif og sameign nemenda og kennara?

Heimasvæði og sameign verða áfram til staðar sem geymsla fyrir gögn en þessi svæði eru ekki beintengd við spjaldtölvurnar. Kennurum og nemendum standa til boða skýjasvæði hjá Google þar sem hægt er að vista gögn sem unnið er með í spjaldtölvunum.


Hvernig setur maður efni úr iPad í skjávarpa?

Í þeim kennslustofum þar sem er skjávarpi hefur verið settur upp hugbúnaður sem kallast AirServer og gerir kleift að senda efni þráðlaust úr spjaldtölvu í skjávarpa. Einnig eiga skólarnir nokkur „skott“ en með þeim er hægt að tengja spjaldtölvuna við skjávarpa í gegnum skjásnúru.


Hvað með Office forritin Word, Excel og PowerPoint? Er hægt að nota þau á iPad?

Já, til eru sérstakar útgáfur af þessum forritum fyrir iPad og er hægt að setja þau inn á tæki nemenda og kennara í gegnum Catalog eins og lýst er hér að ofan.


Fá stundakennarar iPad eða bara kennarar í fullu starfi?

Almennt er miðað við að tækjum sé úthlutað til kennara í meira en 50% starfshlutfalli en með ákveðnu svigrúmi þó. Stundakennarar geta fengið spjaldtölvu ef skólastjórí telur þörf á því og óskar eftir úthlutun tækis. Hið sama á við um flesta starfsmenn skóla.


Hvað með find my iPad? Er það uppsett?

Find my iPad er uppsett á tækjum kennara og er sjálfsagt að nota það ef kennari er ekki viss um hvar tæki er niðurkomið. Þess ber þó að gæta að ef tæki glatast eða því er stolið skal kennari strax tilkynna það til yfirmanns og sér tölvudeild þá um að staðsetja tækið. Alls ekki má nota Find my iPad til að eyða efni og stillingum af tækinu.


Fylgja heyrnatól iPödunum?

Nei en við mælum með að heyrnatól séu á innkaupalistum skóla. Heyrnartól, lyklaborð og annar jaðarbúnaður fylgir ekki með spjaldtölvunum en kennarar geta óskað eftir að skóli kaupi slíkan búnað handa þeim.