Bekkjarsáttmáli

Bekkjarsáttmáli

Þegar nemendur í grunnskólum Kópavogs fá afhentar spjaldtölvur er lagt fyrir verkefni í öllum bekkjum þar sem nemendur gera sáttmála sem inniheldur fáar og einfaldar reglur um notkun spjaldtölvanna. Farið er yfir myndatökur og myndbirtingar, virðingu fyrir spjaldtölvum annarra, notkun spjaldtölvunnar sem leiktækis utan skóla, hver ræður notkuninni og hvað sé hæfilegur tími á dag með spjaldtölvuna.

Öppin:

Í þessu verkefni hentar að nota mörg öpp og sem dæmi má nefna  Padlet, Pages og Google Docs. Einnig er hægt að búa til einfalt skjal inn í Google Forms og láta hópana skila niðurstöðum þangað.

Markmið:

• Að nemendur sammælist um að spjaldtölvur séu notaðar á ábyrgan og skynsamlegan hátt í bekknum

• Að nemendur íhugi hvað sé rétt og ábyrg notkun spjaldtölva og annarrar tækni

• Að nemendur ræði þessi mál við foreldra sína

Undirbúningur:

Kennari velur það app sem á að nota í verkefnið og kynnir sér notkun þess. Mikilvægt er að kennari taki afstöðu til þeirra þátta sem eru til umræðu í þessu verkefni og kynni sér ennfremur hvaða viðhorf séu ríkjandi til þeirra í skólanum. Umræða um þau álitamál sem fjallað er um í verkefninu þarf að fara fram áður en verkefnið er lagt fyrir og er best að sú umræða fari fram þegar nemendur eru ekki að vinna með spjaldtölvurnar.

Verkefnið:

Kennari skiptir bekknum í fimm hópa og fær hver hópur umræðuefni til að fjalla um. Spurningarnar (sjá hér) eru settar inn í skjal (Docs eða Pages) og það síðan sent til hópanna með loftskeyti (Airdrop) eða nemendum gefinn upp kóði (Padlet). Ef Google Classroom er notað er spurningarnar gerðar aðgengilegar þar.  Nemendur ræða málin í sínum hópi og komast að samkomulagi um reglur fyrir bekkinn. Einn úr hópnum tekur að sér ritarahlutverk og skilar niðurstöðum til kennara eða inn í Google Classroom. Í lokin stýrir kennari umræðum þar sem allar reglurnar eru kynntar fyrir bekknum, ræddar og samþykktar. Kennari flytur niðurstöður bekkjarins út sem pdf-skjal, prentar það út og hengir upp í stofunni og að sjálfsögðu er tilvalið að senda það til foreldra.

Uppfært í júní 2019