Þetta verkefni er byggt á verkefni Hildar Rudolfsdóttur í Garðaskóla.
Öppin:
Nemendur greina myndir á Instagram og setja niðurstöðurnar upp í töflu í Numbers.
Markmið:
• Að nemendur geri sér grein fyrir hvernig „fræga fólkið“ nýtir sér samfélagsmiðla og í hvaða tilgangi.
• Nemendur skoða einnig hvort að þessi einstaklingar séu að auglýsa vörur og ef svo er hvort það sé augljóst að um auglýsingu sé að ræða.
Undirbúningur:
Nemendur para sig saman til að vinna að verkefninu og búa svo til töflu í Numbers með þessum fimm dálkum:
Nafn einstaklings – Persónulegt – Æfingar – Atvinna – Annað
Dæmi: Katrín Tanja Davíðsdóttir – 50% – 20% – 25% – 5%
Verkefnið:
Hvert nemendapar velur að skoða Instagram síðu einhvers frægs einstaklings. Gott að nemendur velja ekki allir sama einstaklinginn til að fá meiri breidd í umræðurnar í lokin.
Hér er listi yfir vinsælustu Instagram stjörnurnar á alþjóðavísu
Hér eru vinsælustu Instagram stjörnurnar á Íslandi árið 2019
Nemendur flokka 30-40 síðustu myndir einstaklingsins í þá fjóra flokka sem þar koma fyrir (persónulegt, æfing/undirbúningur, atvinna og annað). Nemendur mega flokka fleiri myndir ef þau vilja en flokkunin á ekki að taka mikið lengur en 15 mínútur. Þegar flokkun er lokið skal reikna út hlutfall (%) hvers flokks hjá viðkomandi einstaklingi.
Dæmi um persónulegt: Myndir af einstaklingnum með makanum og eða fjölskyldu, sumarleyfismyndir, mynd af gæludýri, út að borða með vinum eða á skemmtistað o.s.frv.
Dæmi um æfingu/undirbúning: Myndir af undirbúningi/æfingu í ákveðinni íþrótt eða sýningu, fyrir tónleika o.s.frv.
Dæmi um atvinnu: Myndir af einstaklingnum að tala við aðdáendur, úr tónleikaferð, úr keppnum atvinnumanna í íþróttum, rauða dreglinum þegar leikarar eru að kynna myndir o.s.frv.
Dæmi um annað: Myndir sem passa ekki í hina flokkana þrjá.
Úrvinnsla 1:
Þegar nemendur hafa lokið greiningu og skráningu eru niðurstöðurnar settar fram í myndriti. Spurningar til að hafa í huga a. Er hægt að sjá eitthvað mynstur í hlutföllum hvers flokks á milli einstaklinga? b. Eru sömu hlutföllin almennt, sömu hlutföllin eftir því hvað einstaklingurinn starfar við eða bara alls ekki?
Úrvinnsla 2:
Fyrirmæli fyrir greiningu á hugsanlegum auglýsingum á samfélagsmiðlum. 1. Látið nemendur fara aftur yfir sömu myndir og áður en merkja núna við hve oft þau telja að um auglýsingu á vöru eða þjónustu sé að ræða. Nemendur skulu einnig skrá hjá sér hvað þau telja að verið sé að auglýsa með viðkomandi færslu. Gefið um 10-15 mínútur í þennan lið.
2. Bætið við „Auglýsing“ í auða dálkinn aftast í töflunni, ásamt hlutfallinu frá hverjum hópi.
Spurningar til að hafa í huga eftir að tölurnar eru komnar inn:
• Er augljóst að um auglýsingu sé að ræða?
• Finnst nemendum hlutfallið á hugsanlegum auglýsingum hátt eða lágt fyrir mismunandi einstaklinga?
• Hvaða vörur er helst verið að auglýsa samkvæmt greiningunni?
• Sjá nemendur eitthvað mynstur t.d. á milli þeirra sem starfa í sömu atvinnugrein (leikarar, íþróttamenn, söngvarar)?
• Finnst nemendum almennt mikið um auglýsingar á samfélagsmiðlum (Instagram, Snapchat, Facebook…)?
• Eru margir nemendur sem leita sérstaklega eftir að fylgja einstaklingum sem eru styrktir í gegnum auglýsingar? Ef já, hverjum eru þeir helst að fylgja?
• Telja nemendur sig almennt vita hvenær verið er að auglýsa ákveðna vöru eða þjónustu á samfélagsmiðlum? Er það alltaf hægt?
Uppfært í júní 2021