Ýmsar bjargir fyrir kennara til að ræða og vinna með samskipti unglinga frá mörgum hliðum


Sjúk ást 

Sjúk ást er titill átaks sem Stígamót standa fyrir og hófst í aðdraganda Valentínusardagsins, 14. febrúar 2018. Með átakinu er vakin athygli á einkennum heilbrigðra, óheilbrigðra og ofbeldisfullra sambanda meðal ungmenna. Markmið átaksins er að koma í veg fyrir ofbeldi með fræðslu um heilbrigð samskipti og áherslu á virðingu í samböndum. Markhópurinn eru ungmenni í grunn- og framhaldsskólum. Á vef átaksins er mikið af gagnlegu efni, bæði lesefni og myndbönd.


Fáðu já!

Fáðu já er 20 mínútna stuttmynd sem skýrir mörkin á milli kynlífs og ofbeldis, vegur upp á móti áhrifum klámvæðingar, brýtur ranghugmyndir á bak aftur og innrætir sjálfsvirðingu í nánum samskiptum. Hún er ætluð nemendum á efsta stigi grunnskóla.


Stattu með þér!

Stattu með þér er 20 mínútna löng stuttmynd ætluð nemendum á miðstigi grunnskóla. Myndinni er ætlað að spyrna gegn kynferðisofbeldi og klámvæðingu með sjálfsvirðingu og jákvæðni að leiðarljósi. Stattu með þér! er fyrsta fræðsluefni sinnar tegundar fyrir þennan aldurshóp og standa vonir til að kennarar og foreldrar nýti það til að efla 10-12 ára börn að standa með sér gegn staðalímyndum og útlitsdýrkun og rækta sjálfsvirðingu í mannlegum samskiptum.

Myndina, kennsluleiðbeiningar og annað gagnlegt efni má sjá hér.


Myndin af mér – um kynlíf, ábyrgð og ofbeldi á netinu.

Myndin af mér er tæplega hálftíma löng stuttmynd sem skipt er niður í fjóra þætti og eru þeir sjálfstætt framhald af stuttmyndunum “Fáðu já”! og “Stattu með þér”! Markmið myndarinnar er að vekja athygli á svokölluðu stafrænu kynferðisofbeldi, skýra mörkin milli kynlífs og ofbeldis ásamt því að leggja áherslu á samþykki og ábyrgð í öllum nánum samskiptum, hvort sem þau gerast í netheimum eða raunheimum.

Með þáttunum fylgja góðar kennsluleiðbeiningar.


Kennsluefni frá Menntamálastofnun

Alls kyns um kynferðismál 10-12 ára

Í þessari teiknuðu stuttmynd er fjallað um kynþroskann og helstu breytingar sem verða á líkama stelpna og stráka á þessu æviskeiði. Getnaður er einnig útskýrður í máli og myndum. Myndin er einkum ætluð nemendum á aldrinum 10–12 ára. Hún er einnig til textuð.

Alls kyns um kynferðismál 13-15 ára

Í þessari teiknuðu stuttmynd er fjallað um ýmsar hliðar kynferðismála. Rætt er um hugtök eins og kyn, kynvitund, kynhneigð og kynlíf. Myndin er einkum ætluð 13–15 ára nemendum. Hún er einnig til textuð.

Kynfræðsluvefurinn

Á þessum vef er hægt að skoða hvaða breytingar verða á líkamanum við kynþroska, fræðst um líffærin sem tengjast honum, um getnað og getnaðarvarnir, kynhneigð, kynlíf, fósturþroska og fæðingu.


Efni frá Landlæknisembættinu

Sambönd og samskipti

Á þessari síðu má finna greinar og upplýsingar um ýmislegt er varðar sambönd og samskipti ungmenna – Sambönd við kærustu, kærasta, vini, foreldra og fjölskyldu.

Heilsuvera.is

Heilsuvera er vefur fyrir almenning um heilsu og áhrifaþætti hennar. Þar má finna mjög mikið efni tengt andlegri og líkamlegri vellíðan ungmenna.

Örugg saman

Embætti landlæknis hefur gefið út námsefni sem nefnist Örugg saman og er um andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi í samböndum unglinga sem ætlað er til kennslu í 9. eða 10. bekk grunnskóla.


Efni úr fjölmiðlum um samskipti fólks á netinu sem hægt er að nýta í fræðslu með unglingum

Mikilvægt að byrja kynfræðslu fyrr: „Er ekki að tala um að setja smokkinn á eitthvað tréskaft“

Tvö viðtöl eru í fréttinni. Fyrra er við Kára Sigurðsson og Andreu Marel sem mynda fræðsluteymið Fokk Me-Fokk you. Hér eru nokkur atriði sem koma fram í viðtalinu.

  • Fólk leyfir sér að skrifa hluti sem það myndi aldrei segja maður á mann.
  • Börn eiga að setja sér mörk og virða mörk annarra.
  • Gerendur eru ekki endilega skrímsli heldur vita ekki hvað eru eðlileg samskipti og hvað ekki.
  • Ekki hægt að skella skuldinni á snjalltæki eða samfélagsmiðla.
  • Enginn að búa til forrit til þess að vera slæm en það eru einhverjir notendur sem gera þau slæm. Vinaforrit breytist í áreitnisforrit.
  • Samtöl við börn og unglinga þurfa að vera á heimilum, skólum og í tómstundastarfi.

Seinna viðtalið í fréttinni er við Sólborgu Guðbrandsdóttur sem hélt úti hópnum “Fávitar” á Instagram þar sem sýnd eru skjáskot af grófum kynferðislegum skilaboðum sem aðallega karlmenn/strákar eru að senda konum/stelpum. Hér eru nokkur atriði sem koma fram í viðtalinu.

  • Börn niður í 11 ára aldur eru að fá klámfengin skilaboð.
  • Ungmenni þurfa fræðslu. Læra muninn á kynlífi og klámi.
  • Fræðslan þarf að vera regluleg en ekki átaksbundin.
  • Algengasta miðlaformið fyrir svona skilaboð er Instagram og Snapchat.
  • Markmið með “Fávita” síðunni er að skapa umræðu.

Hvað hefur Fávitasíðan kennt þér? er spurning sem hægt væri að spyrja þá nemendur sem hafa kynnt sér efni hennar.

“Hugmyndir um kynlíf brenglaðar”

Niðurstöður rannsóknar sem Þórður Kristinsson framhaldsskólakennari gerði ásamt fleirum á áhrifum kláms á viðhorf unglinga leiðir í ljós að þeir fá ekki nógu góða fræðslu og leiti í klám. Hugmyndir þeirra um kynlíf geti verið mjög brenglaðar.


“Grunnskólabörn eru oft beðin að senda af sér nektarmyndir”

Um þrjátíu prósent stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi eða nektarmyndir. Um 6 prósent nemenda í 10. bekk hafa selt slíkar myndir. Þetta sýnir könnun Rannsókna og greiningar.


“Full­orðnir aðilar greiða ung­mennum fyrir kyn­ferðis­legar ljós­myndir”

Leið þeirra að samskiptum við ungmennin er í flestum tilvikum í gegnum spjall á netinu og þá helst Snapchat og Instagram auk þess sem Tik tok og appið Telegram hafa verið nefnd.


Umræður í bekk – Kennsluhugmynd

Ræða málin almennt í byrjun. Skipta svo nemendum í litla hópa og hver hópur fær skjal með eftirfarandi spurningum til að ræða. Svörin gætu verið í sameiginlegu docs-skjali eða á Padlet vegg.

  • Hvaða samfélagsmiðla eru nemendur að nota?
    • Hér er of víðtækt að ræða um alla samfélagsmiðla sem þeir þekkja.
  • Hvað er jákvætt við samfélagsmiðla?
  • Hvað er neikvætt við samfélagsmiðla? 
    • Hægt að minnast á Instagramsíðuna “Fávitar”
    • Í hvaða öppum eru nafnlausar spurningar?
  • Er munur að ræða við einstakling í netheimum og í raunheimum?
  • Gera allir sér grein fyrir því að það sem fer á netið verður þar alltaf (rafrænt fótspor)?
  • Hvernig skilgreina nemendur kynferðislega áreitni?
  • Hvar liggja mörkin í samskiptum?
  • Þeir sem fara yfir mörkin, gera þeir sér grein fyrir því?
    • Ef einhver fer yfir mörkin þá á að láta vita og stoppa viðkomandi.
  • Hver er munurinn á kynlífi og klámi?

Það sem ætti að koma út úr umræðunum er að

  • allir eiga sín mörk og eiga rétt á að aðrir virði þau
  • sem flestir nemendur séu sammála hvar mörkin liggja
  • óumbeðnar nektarmyndir eru kynferðisleg áreitni
  • leita sér aðstoðar ef maður verður fyrir kynferðislegri áreitni

Ítarefni

Ábendingalína Barnaheilla  þar sem hægt er að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni á netinu sem varðar börn eða er beint gegn börnum og unglingum undir 18 ára aldri.

Áttavitinn  Spurningar og svör um sambönd og kynlíf.

Ástráður Kynfræðslufélag læknanema.

Börn og netmiðlar  Víðtæk spurningakönnun meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára um allt land á vormánuðum árið 2021.

Hvað er kynferðisleg áreitni? Skilgreining frá Jafnréttisstofu.

Klám og “sexting” – Ungt fólk  Niðurstöður úr íslenskri rannsókn frá R&G.

Klukkan Sex  Hlaðvarp fyrir unglinga um ýmislegt tengt kynlífi.

Kynferðiseinelti í íslenskri skólamenningu  Rannsóknarskýrsla þar sem spurt er: Hvað er kynferðiseinelti, hvernig birtist það í íslenskri skólamenningu og hverjar eru afleiðingar þess?

Kynferðiseinelti og mótun kvenleikans í íslenskri skólamenningu  Grein þar sem fjallað er um kynferðiseinelti og upplifun ungmenna sem hafa af því reynslu.

Kynfræðsla fyrir alla Kynfræðsluvefur fyrir einstaklinga með þroskahömlun.

Kynfræðsla í Sæmó Lífsleikni og kynheilbrigði frá Sæmundarskóla

Lífsleikni og kynheilbrigði Safn markmiða og verkefna fyrir öll aldursstig.

„Mér finnst það bara verða grófara og grófara“ Upplifun ungra karla á kynlífsmenningu framhaldsskólanema. Rannsókn þar sem leitast er við að varpa ljósi á upplifun ungra karla á þeirri kynlífsmenningu sem þeir búa við í dag. (Athugið að ekki þarf að hlaða skjalinu niður heldur þarf að skruna aðeins niður á síðunni).

Ofbeldi gegn börnum – Fræðsluefni sem stjórnarráð Íslands hefur tekið saman.

Rafrænt fótspor Útskýring á hugtakinu ásamt góðum ráðum til að eiga jákvætt rafrænt fótspor.

Sakhæfisaldur á Íslandi er 15 ára  Í 14. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er sakhæfisaldur ákvarðaður 15 ár. Þannig getur ósjálfráða maður verið dæmdur til refsingar, hafi hann til þess unnið, þótt tekið sé tillit til ungs aldurs við ákvörðun refsingar.

Stopp ofbeldi  Fræðsluefni fyrir börn, foreldra og starfsfólk um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreiti sem Menntamálastofnun tók saman.

Te og samþykki Skemmtilegt myndband á ensku sem líkir kynlífi við tedrykkju.

Vika Sex Vika6 er sjötta vika ársins og stefnan er að sú vika festist í sessi á öllum starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs í Reykjavík sem árleg vika kynheilbrigðis. Ýmislegt efni um þætti sem snúa að kynlífi og kynheilbrigði.

Safn vefslóða tengdum kynheilbrigði.


Uppfært í júní 2022