List er tjáning

Öppin

Í þessu verkefni koma fjölmörg öpp til greina og þá sérstaklega öpp sem byggja á teikningu eða umbroti eins og t.d. Paper eða Autodesk SketchBook.

Markmið

• Að nemendur skilji að list er ein leið til tjáningar og það eðlislæg leið. 

• Að nemendur kynnist pólitískri hugsun í listum. 

• Að nemendur þori að setji fram persónulega sýn á tiltekin málefni í gegnum list. 

• Að nemendur þroski með sér hugsun sem byggir á stafrænni borgaravitund, jafnrétti, tillitsemi við náungann og skilningi á aðstæðum annarra. 

• Að allir kennarar skilji að tjáning í gegnum list skiptir máli. 

• Að vinna verkefni þvert á námsgreinar (t.d. myndmennt, lífsleikni og samfélagsfræði). 

Undirbúningur

Nemendur vinna verkefnið í sínum spjaldtölvum og skila til kennara t.d. í Google Classroom eða senda með loftskeytabúnaðinum Airdrop.

Gott er að kennarar í viðeigandi námsgreinum ræði saman og verkefnið sé unnið í þema. Sem dæmi getur lífsleiknikennarinn lagt inn verkefnið og þá fjallað um að list er leið til tjáningar á sama hátt og orð og texti. Hann sýnir verk listamanna sem segja sögu og þannig býr hann til kveikju. Því næst leggur kennarinn inn það verkefni sem er til umfjöllunar. Sem dæmi um verkefni þar sem nemendur þurfa að mynda sér skoðun og tjá er einelti á netinu, hrelliklám eða það að enginn hefur rétt á að birta viðkvæmar myndir af okkur á netinu. 

Nemendur fá kynningu á list listamanna á borð við Guerilla girls eða Banksy. List þeirra er sýnd og útskýrð. Nemendur fá kynningu á tilteknu máli sem taka þarf afstöðu til, t.d. hrellikláms, og svo vinna þeir myndverk í samstarfi við myndmenntakennara og þá með spjaldtölvunni þar sem þeir koma afstöðu sinni til skila. Allan tímann er nemendum ljóst að verk þeirra verða hengd upp til sýnis. Mikilvægt er að rödd þeirra heyrist. 

Verkefnið

Kennari sýnir myndir listamanns sem tjáir pólitískar skoðanir (t.d. Guerilla girls, Banksy eða Barbara Kruger) og fjallar um innihald og merkingu. Því næst er viðfangið lagt inn. 

Hér er lagt til að umfjöllunarefnið verði hrelliklám (hefndarklám). Hrelliklám er því útskýrt, hverjir eru gerendur (mikill meirihluti gerenda eru karlmenn/drengir) og afleiðingar fyrir þolanda. Fjallað er um raunveruleg dæmi um afleiðingar hrellikláms eins og frásagnir Júlíu og Helgu. Fleiri umfjallanir eru hér.

Því næst eru nemendur beðnir um að mynda sér skoðun á viðfanginu og nokkur tími gefinn til umhugsunar, þess vegna nokkrir dagar. Það næsta er að nemendur eiga að vinna myndverk þar sem skoðun þeirra og meining varðandi hrelliklám kemur fram. 

Slíkt er hægt að vinna með myndavélinni og/eða teikniöppunum Paper eða Autodesk SketchBook.. Nemendur fá tiltekinn tíma til vinnunnar (hér er lagt upp með að lágmarki tvær kennslustundir) og svo er verkefninu skilað til kennara með Airdrop eða í gegnum Google Classroom

Úrvinnsla

Ýmsir kostir eru mögulegir: 

• Kennari prentar myndirnar út og hengir upp með nafni nemenda. 

• Kennari deilir afrakstrinum með foreldrum í föstudagspósti eða fréttabréfi. 

• Sýning á verkum nemenda er haldin í skólanum. 


Uppfært í júní 2021