Ferð spjaldtölvuteymis í skólaheimsóknir í Danmörku og Eistlandi, mars 2017

Starfsmenn spjaldtölvuverkefnis grunnskóla heimsóttu tvo danska og einn eistneskan skóla sem allir eiga það sameiginlegt að hafa náð árangri í tæknivæðingu skólastarfsins. Hópurinn samanstóð af verkefnastjóra og þremur kennsluráðgjöfum en í Danmerkurhluta ferðarinnar var einnig tæknistjóri spjaldtölvuverkefnis með í för, auk tveggja kennara frá Brekkuskóla á Akureyri og fulltrúa frá Epli.

Aðdragandi

Kveikjuna að þessari ferð má að talsverðu leyti rekja til fyrri Danmerkurferðar, þegar fjölmennur hópur frá Kópavogi heimsótti sveitarfélagið Odder á Jótlandi í nóvember 2015. Gestgjafar okkar í þeirri heimsókn höfðu á orði að gagnlegt væri fyrir okkur að kynna okkur skólastarf í tveimur öðrum byggðarlögum á Jótlandi og voru þar nefndir Söndenvangsskolen í Århus og VUC Syd í Haderslev. Einnig lýstu sömu gestgjafar á þessum tíma áhuga á frekara samstarfi við Kópavogsbæ í tengslum við innleiðingu spjaldtölva og breytingu kennsluhátta. Ferðin til Odder 2015 var styrkt af Erasmus+ og hefur Kópavogsbær verið hvattur til þess af Rannís, sem sér um Erasmus+ á Íslandi, að sækja um frekari styrki til samstarfs við erlenda aðila. Var verkefnastjóra spjaldtölvuverkefnis boðið að segja frá verkefninu á tengslaráðstefnu um upplýsingatækni í skólastarfi sem haldin var í Reykjavík í nóvember 2016, en markmið slíkrar ráðstefnu er meðal annars að leiða saman fagaðila í ólíkum löndum sem gætu haft áhuga á samstarfi. Á umræddri ráðstefnu lýsti fulltrúi frá Pelgulinna Gümnaasium í Tallinn áhuga á samstarfi við Kópavogsbæ og hófust þá viðræður um hugsanlegt þrí- eða fjórhliða samstarf.

Í lok mars 2017 var send umsókn um svokallaðan „Partnership“ styrk hjá Erasmus+ verkefninu, þar sem lögð er upp tveggja ára dagskrá samstarfsverkefnis þriggja landa. Ef styrkur fæst mun Kópavogsbær því eiga þess kost að senda fulltrúa í náms- og kynnisferðir til Danmerkur og Eistlands en skuldbindur sig til að bjóða hingað til lands fulltrúum hinna landanna.

VUC Syd

Fyrsti skólinn (Opnast í nýjum vafraglugga) sem heimsóttur var í þessari ferð er fyrir nemendur á framhaldsskólaaldri og þaðan af eldri, sem hafa flosnað upp úr skólanámi. Sumir hafa ekki verið í skóla árum saman og eiga það sameiginlegt að hafa átt neikvæða upplifun af skólagöngu. Algeng lýsing nemendanna á sinni fyrri skólagöngu er að þeir hafi aldrei passað inn í skólaumhverfið. Svar skólans er að hér sé það skólinn sem eigi að laga sig að þörfum nemendanna, ekki öfugt.

Mikið er lagt upp úr því að búa til notalegan og góðan vinnustað fyrir nemendur og kennara. Skólabyggingin sjálf er gríðarleg fjárfesting og hafði einn kennari það á orði að gestir frá Bandaríkjunum furðuðu sig einmitt á því að Danir væru að eyða svona miklum peningum í „dropouts“ – það er út af fyrir sig áhugaverð menntapólitísk afstaða sem vert er að gefa gaum. Ungt, ómenntað fólk sem áður fór í láglaunastörf, störf sem nú eru horfin, lifa á bótum og eru samfélaginu mjög dýr. Það er áhugaverð afstaða að betra sé að fjárfesta í að koma þessum þjóðfélagshópi til mennta og út á vinnumarkaðinn, oft í sérhæfð og vel launuð störf í tæknigeiranum, enda skólinn afar vel tæknivæddur. Skólinn er á fimm hæðum og brattir stigar á milli hæða sem eru hugsaðir í þeim tilgangi að nemendur fái hreyfingu. Einnig er gengt út á svalir úr öllum kennslurýmum, svalir sem liggja hringinn í kringum húsið og því er alltaf auðvelt að færa kennsluna út undir bert loft.

Glerveggir eru áberandi, bæði til þess að birta að utan nái í gegnum bygginguna en einnig þjónar það þeim tilgangi að kennarar eiga auðvelt með að fylgjast með nemendum um allt hús, en kennsluhættir byggja alls ekki á mikilli samveru kennara og nemendahóps í lokuðu rými. Frekar er farin sú leið að kennari hittir nemendahóp, annað hvort í kennslustofu eða næðisrými, útskýrir verkefni fyrir nemendum og sendir þá síðan af stað í vinnu. Þá geta nemendur komið sér fyrir þar sem hentar, en nóg er af lokuðum (gegnsæjum) næðisrýmum með hópvinnuborðum og einnig eru hópvinnuborð á opnum svæðum. Nemendur hittast svo að lokinni vinnutörn með kennara, sem fer yfir það sem nemendur hafa gert, gefur endurgjöf og sendir nemendur eftir atvikum aftur af stað í vinnu til að halda áfram, nema verki sé lokið.

Eins og greina má af framantöldu er sjálft skólahúsið hannað með óhefðbundna kennsluhætti í huga. Gestgjafar okkar sögðu frá því að það hefði auðveldað mjög vinnu við að breyta kennsluháttum að skólabyggingin væri ekki hólfuð niður í lokuð rými þar sem kennarinn er í öndvegi og nemendur snúa allir í átt að honum og töflunni. Reyndar var áhugavert að engar töflur voru neins staðar í þessum skóla. En þegar skólastarfið var komið á flug með breyttum kennsluháttum fundu kennarar fyrir því að námsefni skorti sem hentaði þessum kennsluháttum. Námsbækur eru enn miðaðar við hefðbundna kennslu, þar sem nemendum er skipt í hópa eftir aldri, vinnu þeirra skipt niður í stuttar kennslustundir þar sem ein kennslugrein er tekin fyrir í einu. Námsbókin er því fyrst og fremst hönnuð með það í huga að hún innihaldi það sem meðalnemandi á að komast yfir á einu ári í enni námsgrein. Hér eru verkefnin styttri og mjög oft samþætt, þ.e. námsmarkmið margra ólíkra námsgreina er að finna í hverju verkefni. Því var ákveðið að hér þyrftu kennarar sjálfir að útbúa sitt námsefni. Á hverju ári eru um 16-18 kennarar sem sinna námsefnisgerð í hálfu starfi á móti kennslu. Þeir útbúa rafbækur sem mega að hámarki vera tíu blaðsíður og á hverri síðu þarf að vera verkefni fyrir nemendur, auk lesefnis, mynda, myndbanda og tengla á ítarefni. Dagana sem þessir kennarar eru í kennslu nota þeir svo til að prófa námsefnið og sníða af því vankanta áður en það er gefið út.

Rúsínan í pylsuendanum í þessari heimsókn var svo nýjasta viðbótin við skólann, sem hefur hlotið nafnið Flow Factory. Hér eru nýir kennsluhættir teknir enn lengra en í VUC, en nemendur vinna hér í um það bil sex vikna vinnulotum að einu afmörkuðu verkefni í senn. Stundatöflur eru engar, nemendur fá vandamál að glíma við – oft eru það sveitarfélagið eða fyrirtæki í nærsamfélaginu sem leggja vandamálið til – og vinna að heildstæðri lausn sem síðan er kynnt fyrir „viðskiptavininum“ – dæmi um verkefni sem unnin hafa verið eru tillögur að nýju hverfisskipulagi, aukin sjálfbærni í orkunýtingu og þar fram eftir götunum.

Hér eru myndir frá heimsókninni.

https://www.flickr.com/photos/kopspjold/albums/72157681917112335 (Opnast í nýjum vafraglugga)

 

Söndervangskolen í Århus í Danmörku

Síðari skólinn sem heimsóttur var í Danmörku er grunnskóli í úthverfi Århus þar sem 97% nemenda eru af erlendu bergi brotnir og tala annað móðurmál en dönsku. Flestar fjölskyldur í skólasamfélaginu koma frá Afganistan eða Sómalíu en alls eru nemendur af yfir tuttugu ólíkum þjóðernum. Skólastjórinn hefur starfað við skólann í níu ár og tók við honum í mikilli niðurníðslu. Tekist hefur að bæta skólabrag, námsárangur og ímynd skólans á undraverðan hátt á nokkrum árum, meðal annars fyrir tilstilli tækninnar. Skólastjórinn telst Íslandsvinur, því hann tók þátt í vinnudegi fyrir skólastjórnendur sem haldinn var á vegum Apple í Hörpu í júní 2016.

Það sem helst stendur uppúr eftir heimsókn í þennan skóla er hversu skýra sýn skólastjórinn hefur og tjáir við starfsfólk jafnt sem nemendur, um hvert skólinn skuli stefna. Nemendur vita til hvers er ætlast af þeim og kennarar sömuleiðis, þeir sem ekki eru sammála þeirri stefnu skólans að veðja á tæknina til að bæta skólastarfið eru einfaldlega hvattir til að starfa annars staðar. Skólastjóri lítur á það sem skýlausan rétt sinn að kennarar séu dregnir til ábyrgðar vegna þeirrar fjárfestingar sem skólinn hefur lagt í þá.

Líkt og í VUC Syd er mikil áhersla lögð á fjölbreytt vinnurými nemenda, en aðstæður eru ólíkar því um er að ræða gamalt, hefðbundið skólahúsnæði sem ekki er hannað með nútíma skólastarf í huga. Farin hefur verið sú leið að hólfa skólatofur niður í smærri rými, þar sem eru ýmist hópvinnuaðstaða, næðiskrókur eða rými til kynninga og innlagna. Athygli vakti að glæsileg og vönduð leiktæki prýða ganga skólans, en markmið þeirra er að hvetja nemendur til að stunda hreyfingu á ferð sinni um skólann. Sannarlega hugmynd sem mætti nýta í skólum Kópavogs, þar sem kennurum, foreldrum og stundum einnig nemendum finnst að of miklum tíma sé varið í kyrrsetu með spjaldtölvu í fanginu.

Breytingar á vinnurýmum hafa í þessum skóla einnig kallað á endurskoðun stundatöflunnar þótt ekki sé þróun komin jafn langt og í VUC Syd. Hefðbundin stundatafla er ekki við lýði nema lítinn hluta skólaársins, þess á milli eru nemendur að vinna samþætt þemaverkefni þar sem námsmarkmið margra námsgreina eru undir. Allar þessar breytingar reyna mjög á kennara sem hafa þurft að tileinka sér ný vinnubrögð á skömmum tíma. Stuðningur við kennara er talsverður, kennsluráðgjafar heimsækja skólann á tveggja vikna fresti til að halda námskeið og veita kennurum handleiðslu.

Hér eru myndir frá heimsókninni:

https://www.flickr.com/photos/kopspjold/albums/72157678520711444 (Opnast í nýjum vafraglugga)

Pelgulinna Gümnaasium í Tallin

Heimsóknin til Tallinn var ekki síður áhugaverð þótt samfélagið þar og skólakerfið sé nokkuð ólíkt því danska og íslenska. Við heimsóttum skólann á 105 ára afmælisdeginum og var skólastarf því ekki í sínum allra föstustu skorðum. Alls staðar voru nemendur að vinna að ýmiskonar listgreinaverkefnum og má þar nefna hannyrðir sem selja átti á uppboði á afmælishátíðinni, smíðanemendur sem höfðu útbúið ansi raunverulegar leikfangabyssur (málaðar hvítar í öryggisskyni), reiðhjól sem nemendur höfðu hannað og smíðað og ýmislegt fleira. Einnig vorum við svo heppin að fá hóp nemenda til að syngja fyrir okkur eistneskt þjóðlag.

Eistland tók snemma eftir sjáfstæðisyfirlýsingu þá ákvörðun að veðja á tölvutækni í menntun og atvinnulífi. Ekki vita margir að forritunin á bak við Skype er verk eistneskra forritara, svo dæmi sé nefnt. Upplýsingatækni er nýtt í kennslu allra námsgreina en einnig sem sérstök námsgrein. Við heimsóttum tölvustofu sem virkaði fornfáleg í okkar augum, enda voru borðtölvur af öllum stærðum og gerðum og flestar í eldri kantinum. Þar sátu kornungir nemendur og hönnuðu lítil plastleikföng til prentunar í þrívíddarprentara.

Aðalnámskrá Eistlands inniheldur talsverðan sveigjanleika að sögn gestgjafa okkar. Hún inniheldur tilmæli til skóla um að hinum og þessum námsgreinum sé sinnt upp að tilteknu marki, en skólar geta ákveðið áherslur hver fyrir sig. Hér var gengið lengra í nýtingu upplýsingatækni en víðast annars staðar í landinu. Sem dæmi má nefna að kennsla í netöryggi og stafrænni borgaravitund ætti helst ekki að hefjast síðar en í fjórða bekk samkvæmt aðalnámskrá, en hér er byrjað strax í fyrsta bekk. Er það vegna þess að með aukinni nýtingu tækninnar í skólanum sést strax að þörf er á að sinna þessum þætti án tafar.

Svipuð lausn hafði verið fundin í þessum skóla á þeim „vanda“ að nemendur nýti snjalltæki sín til afþreyingar á göngum skólans í frímínútum. Hér voru þó ekki sömu peningaupphæðir til að spila úr og voru „leiktækin“ því máluð á veggi og gólf. Leikur er mikið nýttur sem námsaðferð, meðal annars var okkur sýnt dæmi um tvo námsleiki sem nýttir eru í kennslu um netöryggi.

Hér eru myndir frá heimsókninni.

https://www.flickr.com/photos/kopspjold/albums/72157680197792820 (Opnast í nýjum vafraglugga)

Samantekt

Meginmarkmið þessarar ferðar var að starfsmenn spjaldtölvuverkefnis grunnskóla sæktu sér innblástur og þekkingu frá aðilum sem lengra eru komnir á þeirri braut sem við erum á. Óhætt er að fullyrða að þessu markmiði hafi verið náð. Einnig var rætt við þessa aðila um möguleika á áframhaldandi samstarfi og reyndist í öllum tilvikum vera áhugi fyrir því. Næsta skref er að sækja um styrk til samstarfsverkefnis til tveggja ára og fáist fjármagn úr þeirri átt er mikilvægt að dyggilega sé stutt við samstarfið, að allir skólar taki þátt og séu tilbúnir að ráðstafa sínu besta fólki í það.

Ánægjuleg aukaafurð ferðarinnar var sú sterka upplifun hópsins að við séum á réttri leið með okkar verkefni, engin ástæða sé til þess að hika eða slá af, heldur leggjast frekar fastar á árar. Nú þegar styttist í að þriðja skólaár innleiðingarinnar gangi í garð er eðlilegt að auknar kröfur séu gerðar til skólastjórnenda og kennara. Aðlögunartíminn er senn á enda og enginn ætti lengur að velkjast í vafa um að átak í breyttum kennsluháttum sé komið til að vera.