Gagnleg náms- og kynnisferð til Lundúna í janúar 2017 Verkefnastjóri og kennsluráðgjafar sóttu ráðstefnu á vegum Apple og BETT-sýninguna

Fjórir fulltrúar frá Kópavogi áttu þess kost á dögunum að sækja Apple Leadership Summit ráðstefnuna sem haldin er ár hvert í London. Áður hafa skólastjórnendur og lykilstarfsmenn stjórnsýslunnar sótt ráðstefnuna, sem er á sama tíma og BETT sýningin um tækni og skólastarf og því hægt um vik að sækja hvort tveggja. Voru það kennsluráðgjafarnir þrír sem starfa við spjaldtölvuverkefni grunnskóla sem fóru auk verkefnastjóra.

Fyrsti viðburðurinn sem hópurinn sótti að þessu sinni var námskeið á vegum Apple um nýjan forritunarhugbúnað sem er sérhannaður fyrir iPad spjaldtölvur. Það er ljóst að Apple hefur tekið ákvörðun um að veðja á forritun á næstu misserum. Forritun hefur átt vaxandi áhuga að fagna í íslenska skólakerfinu og fagnaðarefni að nú sé til hugbúnaður sem virkar á spjaldtölvur, sem hefur í för með sér að auðvelt verður að auka þátt forritunar í kennslu í Kópavogi. Hugbúnaðurinn, sem kallast Swift Playgrounds, er skemmtilegur, einfaldur og auðveldur í notkun og vakti mikinn áhuga kennsluráðgjafanna, sem munu kynna þetta í skólunum á næstu vikum.

Apple Leadership Summit ráðstefnan var með svipuðu sniði og undanfarin ár, fyrirlestrar um ágæti spjaldtölvunnar í skólastarfi í bland við vinnustofur þar sem þátttakendum gafst tækifæri til að skoða nánar og prófa ýmislegt sjálfir. Swift Playgrounds kom hér aftur við sögu, sem og tenging ýmiskonar mælibúnaðar við spjaldtölvur, til nota í náttúrufræðikennslu.

Önnur nýjung sem vakti athygli hópsins er þjálfunarefni fyrir kennara sem Apple hefur útbúið og er aðgengilegt ókeypis. Um er að ræða rafbækur þar sem kennt er á helstu kennsluforrit spjaldtölvunnar frá Apple. Auk þess er í boði í sumum löndum einfalt vottunarkerfi þar sem kennari getur sýnt fram á færni sína í notkun foritanna og fengið gæðastimpilinn Apple Teacher – enn sem komið er býðst þetta þó ekki á Íslandi.

Á BETT sýningunni var aðaláhersla lögð á það hjá hópnum að skoða ýmiskonar jaðarbúnað sem nýtist með spjaldtölvum í kennslu, eins og rætt var á fundi stýrihóps í janúar. Má þar nefna mælibúnað fyrir náttúrufræðikennslu, þrívíddargleraugu, green-screen-búnað, forritanleg tæki af ýmsum toga og fleira og fleira.

Teymið vinnur nú að því að setja saman áætlun um búnaðarkaup sem fari fram í vor, með það að markmiði að búnaður verði tilbúinn til notkunar í byrjun næsta skólaárs, að undangenginni kynningu og þjálfun eins og þörf krefur.