Skólaheimsókn í Olive Tree Primary School í Bolton maí 2018

Spjaldtölvuteymið heimsótti áhugaverðan skóla í Bolton Englandi sem nefnist The Olive Tree Primary School en upplýsingatækni er í hávegum höfð í skólastarfinu. Ásamt kennsluráðgjöfum, verkefnastjóra og tæknistjóra var viðskiptastjóri Eplis með í för.

Nemendur

Starfið í skólanum er um margt merkilegt. Nemendur eru á aldrinum fimm til ellefu ára og að mjög stórum hluta komnir af innflytjendum, aðallega frá Indlandi og er efnahagsleg staða foreldra alla jafna ekki sterk. Hugmyndafræði skólans er að ef þú trúir þá tekst þér það (Believe you can) og þar er tæknin sett í öndvegi. Sýnt er fram á að það sé hægt að mennta sig út úr aðstæðum.

Hver nemandi er með iPad spjaldtölvu sem hann tekur með heim á hverjum degi til að vinna heimavinnu og ekki síður til að sýna foreldrum þau verkefni sem nemandinn hefur unnið yfir daginn. Spjaldtölvan er mikið notuð í mælingar, til að taka myndir af ferli sem á sér stað, safna upplýsingum og skrásetja og hún er líka nauðsynleg til að skila verkefnum inn í rafræna kennslustofu. Tæknin þarf að tengjast verkefnunum. Kennari leggur verkefni fyrir í iTunes U en nemendur skila í Showbie. Þar fá allir nemendur munnlega endurgjöf við verkefnin sín en það er eitt af því sem skólinn leggur afar mikla áherslu á og er eins og rauður þráður í gegnum skólastarfið. Mikilvægt er að sýna samskipti sem tengjast hverju verkefni. Nemendur hafa gott aðgengi að kennurum í gegnum Showbie þar sem hægt er að senda skilaboð á milli og biðja jafnvel um aðstoð við verkefni.

Áhersla er á jafnræði nemenda þannig að allir hafa sama rétt á aðgengi að kennurum, námsefni og tækni. Hægt er að tryggja þetta jafnræði með því að allir nemendur hafa aðgang að spjaldtölvu, í skóla og heima.

Nemendur eru gjarnan fengnir til að kenna kennurum á tæknina svo þeir öðlist meiri færni.

Stjórnendur

Í skólanum ræður ríkjum skólastjóri að nafni Abdul Chohan en hann hefur meðal annars komið hingað til lands og haldið tölu yfir skólastjórnendum grunnskólanna í Kópavogi á haustmánuðum 2017. Abdul er mikill menntamaður sem hefur margt fram að færa varðandi upplýsingatækni og notkun hennar í skólastarfi. Hann leggur mikið upp úr að gera ekki hlutina eins aftur og aftur, heldur finna nýjan farveg, þannig þróist nám.

Stjórnendur skipta höfðumáli í öllum breytingarferlum og séu þeir ekki trúir því sem verið er að gera þá spíra fræin seint og illa. Allir verða að róa í sömu átt til að árangur verði sem bestur. Ein af leiðum stjórnenda til að tryggja það er sú að ákveðnir hlutir skólastarfsins eru óumsemjanlegir (The nonnegotionables). Áhugaverð nálgun en þá er skólasamfélagið í viðkomandi skóla búið að ákveða tiltekin vinnubrögð eða ferla og allir eiga að fara eftir því, enginn er undanskilinn. Þetta skapar heild og stöðugleika fyrir nemendur og kennara. Á hinn bóginn er bent á að stöðugleiki náist ekki með því vera með allt of margar aðferðir upp á borðinu í einu.

“Hvað ætlum við að hætta að gera” er líka spurning sem þarf að finna svör við. Þegar spjaldtölvan er notuð í skólastarfi til að gera nýja hluti þarf eitthvað að detta út á móti. Tækni breytist hratt og því er áhersla er á að það nýjasta í tækninni.

Kennarar

Allir kennarar hafa sína spjaldtölvu og fartölvu. Þeir búa til áætlanir, vinna og setja verkefni og fyrirmæli í iTunes U og nota Showbie til að nemendur geti skilað verkefnum og haft yfirsýn.

Stafrænni borgaravitund er gert hátt undir höfði og skipta kennarar með sér verkum og taka ábyrgð á ákveðnum þáttum hennar. Þættirnir eru merktir með lit og veggspjald hengt upp svo það sé öllum sýnilegt og komist til skila í námi og vinnu nemenda.

Kennarar eiga að leggja áherslu á að nemendur fái að prófa sjálfir fremur en að vera með sýnikennslu. Þannig eykst þáttur sköpunar og nemendur verða spenntir fyrir náminu ( design og learning).

Kennarar eru minntir á að spyrja sig stöðugt hvernig verð ég betri kennari. Endurmenntun kennara fer fram oft og reglulega en ekki bara í tímabilum. Þeir fá einnig tækifæri til að þjálfa sig í gegnum námskeið og að leiða þau stundum til þess að öðlast enn meiri færni.

Allir kennarar verða

  • að ná sér í Apple Teacher réttindi
  • að skila munnlegri endurgjöf í gegnum Showbie til nemenda
  • að eiga Twitter reikning og deila reglulega úr skólastarfinu
  • að vera í reglulegum samskiptum við foreldra
  • að klára grunninn í Swift playgrounds
  • að vinna saman að undirbúningi
  • að mæta á “faglega föstudaga” vikulega til að skiptast á skoðunum og hugmyndum

Foreldrar

Foreldrar eru ávallt velkomnir í kennslustundir til að sjá hvernig unnið er í spjaldtölvunum. Skólinn heldur námskeið og fræðslufundi fyrir foreldra meðal annars hvernig námsefni er dreift með spjaldtölvunum og hvernig endurgjöf kennara er háttað. Foreldrum er sýnt fram á að spjaldtölvan er nauðsynleg fyrir námið og framvinduna. Nemendur taka spjaldtölvuna heim með sér á hverjum degi og sýna foreldrum dæmi um verkefni sem þeir eru að vinna að eða endurgjöf kennara. Þegar nemendur gera hefðbundin vinnubókarverkefni taka þeir myndir af þeim en með því móti þurfa þeir ekki að fara með vinnubækurnar í og úr skóla.

Að lokum má nefna að Apple Classroom er í boði fyrir foreldra sem hafa áhyggjur af spjaldtölvunotkun barna sinna heima en með því appi er hægt að hafa stjórn á notkun spjaldtölvanna.

Þetta var virkilega fróðleg og áhugaverð heimsókn í skóla þar sem vinátta og virðing sveif yfir vötnum.

Hér má sjá myndir frá heimsókninni.