Útikennsla – Kennsluhugmyndir

Útikennsla hefur verið vaxandi þáttur í kennsluháttum í grunnskólum almennt. Lengi var stafræn tækni lítt nýtanleg úti en í dag eru flestir nemendur með snjallsíma eða spjaldtölvu og þar með öflugar tölvur til ýmissa nota sbr. ljósmyndunar, skráningu tölfræðilegra gagna o.s.frv. og því er um að gera að opna á möguleikan að nýta hið stafræna úti eins og kostur er.

Photo by Annie Spratt on Unsplash

En hvað er útikennsla? Hugtakið útikennsla hefur verið útskýrt á fjölmarga vegu. Hér er gengið út frá því að útikennsla sé kennsla sem á sér stað utandyra og hefur í för með sér mikla hreyfingu og útiveru bæði fyrir nemendur og kennara. Í stað fastra veggja skólastofunnar kemur víðátta, frjálsræði og nýtt umhverfi. Útikennsla er hugtak sem nær yfir alla menntun sem á sér stað utanhúss, hvort sem það er í þéttbýli eða dreifbýli, manngerðu umhverfi eða villtri náttúru. Útinám er einfaldlega það nám sem fer fram úti, t.d. í útistofu eða í nánasta umhverfi skólans. Þegar kennslan er færð út er skólinn oft kallaður útiskóli. Hægt er að útfæra hann á þann veg sem hentar hverjum og einum kennara, áhugahópi eða skóla (sjá vef landlæknis).

Útikennsla gefur tækifæri til að nýta öll skynfæri með því að tengja viðfangsefni ýmsum þáttum námssviða og námsgreina samhliða hreyfiþjálfun. Þannig er útikennsla góð viðbót við skipulega kennslu skólaíþrótta ásamt því að vera samþætting við önnur námssvið. Fjölbreytt hreyfinám á sér stað við útiveru, einkum í náttúrulegu umhverfi (sjá Aðalnámskrá grunnskóla, 2013:184).

Forsendur

Tækni og stafræn tækni á aldrei að vera forsenda náms. Tækni er verkfæri til náms og það fyrsta sem kennari gerir varðandi útinám er alltaf að skoða námsmarkmiðin. Hvaða námsmarkmiðum er ætlunin að ná með útikennslunni? Þegar þeim spurningum hefur verið svarað er að skoða nemendahópinn og þarfir hans sem og þær leiðir sem eru mögulegar til að ná þeim námsmarkmiðum sem liggja til grundvallar náminu. Ef tækni og starfræn tækni styður námið og eykur líkurnar á að námsmarkmiðunum sé náð skal nýta hana. Tækni á aldrei að vera fyrsta forsenda náms, þ.e. að vera með verkfæri og spyrja hvað get ég gert við það. Nám að alltaf að byggjast á námsmarkmiðum og hvernig eigi að ná þeim.

Hér verða því ekki talin upp heildstæð verkefni heldur reynt að benda á hvernig hægt er að nýta t.d. spjaldtölvu í útikennslu. Hér er verið að gefa hugmyndir fyrst og fremst.

Hugmyndalisti fyrir aðferðir í útikennslu

 • Athuganir
 • Samanburður
 • Úttektir
 • Tilraunir
 • Viðtöl
 • Skoðanakannanir
 • Umhverfistúlkun
 • Vettvangsferðir
 • Söfn og safnafræðsla
 • Samþætting námsgreina
 • Verkefnalausnir
 • Þema
 • Þrautalausnir
 • Ljósmyndun
 • Heimildaöflun
 • Kort og loftmyndir
 • Hreyfing og leikir

Myndavélin

Myndavélin ein og sér er frábært tæki til að nýta í kennslu hvort sem er inni eða úti og hér koma nokkur dæmi.

Myndir af formum, litum og mörgu fleira

Einföld opin verkefni þar sem myndavélin kemur til sögu geta verið að nemendur taki myndir af hlutum í umhverfinu. Þau geta verið tengd námsgreinum eða bara hverju sem og hér eru nokkur dæmi.

Taktu mynd af einhverju

 • kringlóttu
 • ferköntuðu
 • þríhyrndu
 • trapisulaga
 • stóru
 • litlu
 • beinu
 • bogalaga

Taktu mynd af einhverju

 • gulu
 • rauðu 
 • grænu
 • bláu
 • svörtu
 • hvítu

Taktu mynd af einhverju

 • mjúku
 • hrjúfu
 • þurru
 • blautu
 • köldu
 • heitu

 • fallegu
 • ljótu
 • nýju
 • gömlu
 • hreinu
 • skítugu

Taktu mynd af einhverju sem

 • gengur
 • hleypur
 • flýgur
 • skríður
 • rúllar
 • rennur

Taktu mynd af plöntum

 • berfrævingum
 • dulfrævingum
 • trjám
 • grösum
 • mosum
 • fléttum
 • lyngi

Taktu mynd af ólíkum

 • hundategundum
 • fuglategundum
 • skordýrum

Ævintýralegar myndir

Í útikennslunni er gaman að leyfa nemendum að nota hugmyndaflug sitt eins og hægt er.  Eitt slíkt verkefni felst í því að finna tröll eða tröllskessur úti í náttúrunni og þá er gott að hafa spjaldtölvuna við höndina. Verkefnið  felst í því að leita að fyrirbærum úti í náttúrunni sem líkjast trölli eins og í steinum, trjám, fjöllum og plöntum og taka mynd. Einnig er hægt að hvetja nemendur til að búa til sitt eigið tröll úr efnivið úr náttúrunni sem á sinn sérstaka samastað. Þessa tröllarannsókn er auðveldlega hægt að tengja inn í sögugerð, þjóðsögur og náttúrufræði. Nánar er fjallað um þetta verkefni og fleiri í svipuðum dúr á norskum útikennsluvef.  

Vinnuseðlar

Í útikennslu er gott að nota svokallaða vinnuseðla til að gera námið markvissara úti í náttúrunni. Vinnuseðla er til dæmis hægt að búa til í Pages og þá er auðvelt að tengja  myndavélina beint inn í verkefnið. Nemandinn fær vinnuseðilinn sendan inn í spjaldtölvuna sína til útfyllingar á meðan hann er vinnur verkefnið útivið. Seðlinum er síðan skilað með rafrænum hætti til kennara til dæmis með loftskeyti (airdrop) eða inn í rafræna kennslustofu. Dæmi um slíka vinnuseðil er Finnurðu fyrir vorinu?

Hikmyndir (Time Lapse)

Svokallaðar hikmyndir (Time Lapse) geta verið skemmtilegar. Þá tekur myndavélin sjálf myndir með ákveðnu millibili og raðar þeim saman í myndband. Hér er nánari útskýring á þessu fyrirbæri og myndavélin í spjaldtölvunni býður upp á þennan möguleika og því þarf ekki að hlaða niður neinu sérstöku appi.

Með ofangreindri aðferð má skrásetja ýmislegt sem tekur langan tíma að gerast. Sem dæmi má nefna

 • sólarupprás og sólarlag
 • bráðnun íss eða uppgufun vatns
 • laufgun og vöxt plantna
 • mannfjölda á tilteknum stað

Gæta verður að hafa myndavélina og þar með ljósmyndirnar stöðugar í hikmyndagerð, þ.e. að sjónarhornið sé það sama yfir tímabilið sem verið er að vinna með. 

Smásjá

Myndavél og smásjá er góð blanda. Ef nemendur fara út með spjaldtölvurnar til að taka myndir má líka taka myndir af því smáa t.d. litlum lífverum. Til eru litlar smásjár sem hægt er að smella á myndavélina í spjaldtölvunni og taka myndir af viðfangsefninu. Upplagt fyrir skóla að eiga a.m.k. eina og dæmi um svona smásjár eru hér og hér.

Með sama hætti má taka ljósmyndir af tilteknum hlutum og nota aðdráttinn í spjaldinu til að stækka viðfangið og skoða betur. Myndavélin getur því vel nýst á vettvangi til að sjá betur það smáa.

Skjávarpi

Ef spjaldtölvan er tengd við skjávarpa þá má nýta myndavélina sem víðsjá. Myndavélinni er þá beint á einhvern hlut sem á að skoða betur s.s. skeljar, laufblöð, steina og í raun allt sem okkur dettur í hug með þessum hætti. Með þessu móti sjá allir nemendur í kennslurýminu vel því myndin birtist á tjaldinu og enginn þarf að troðast yfir næsta mann til að fylgjast með.

Á sama tíma má nota myndavélina til að taka myndir til frekari úrvinnslu eða myndband. Til dæmis er hægt með þessum hætti að kryfja fisk í sýnikennslu. Einn fiskur dugar og nemendur fylgjast með á skjánum. Á viðeigandi stöðum í ferlinu tekur kennarinn ljósmyndir á spjaldtölvuna til frekari úrvinnslu eða myndband.

Guðmundarlundur

Skógræktarfélag Kópavogs á og rekur fallegan lund í efri byggðum Kópavogs sem nefnist Guðmundarlundur. Í honum er fyrsta flokks aðstaða til útikennslu sem leik- og grunnskólar í Kópavogi geta nýtt sér.

Kirkjugarðar

Kirkjugarðar eru svæði sem alla jafna eru lítið sem ekkert sótt til náms. Þar hins vegar liggur fólk sem hefur lifað ýmsa daga og því liggur saga á bak við hvert nafn. Samþætta mætti ferð í kirkjugarð við aðra útikennslu. Nemendur velja sér þrjú nöfn að skoða og taka myndir af nafni viðkomandi og ártölum. Þegar komið er í skólann er lagst í rannsóknarvinnu þar sem hugsanlega er skoðað hvar viðkomandi starfaði og hvar sá staður er í dag. Skoða má hvar viðkomandi bjó og hvað hann upplifði á sinni ævi. Einstaklingur segjum fæddur 1903 og fallinn frá 1992 upplifði meðal annars tvær heimsstyrjaldir, frostaveturinn mikla o.s.frv. Þarna er heilmikil og merkileg saga sem vert er að gefa gaum. Nemendur geta unnið texta í framhaldinu, myndband, hlaðvarp o.s.frv.

Kort

Nemendur skoða kort af nærumhverfi sínu í Google Maps og koma með tillögur að úrbótum til að gera umhverfið sitt betra.

 • Má bæta við og/eða færa göngu- og hjólastíga?
 • Stoppar strætó á hentugum stöðum í hverfinu?
 • Vantar fleiri gangbrautir og hraðahindranir í hverfið?
 • Eru góðar aðstæður til að geyma reiðhjól við skóla, íþróttahús og tómstundastarfsemi?
 • Vantar aðstöðu til leikja?

Nemendur fara svo á staðinn þar sem úrbóta er þörf og taka myndir, gera mælingar og safna öðrum gögnum sem þarf að hafa til að sannfæra þá sem geta framkvæmt hugmyndir nemenda.

Miðstöð útivistar og útináms

Miðstöð útivistar og útináms (MÚÚ) er miðlæg þekkingarstöð á sviði útivistar og útináms fyrir skóla- og frístundarstarf í Reykjavík. Hlutverk Múú er að veita stuðning og ráðgjöf við eflingu útivistar og útináms í nærumhverfi barna og unglinga í hverfum borgarinnar en á vef MÚÚ er efni sem gagnast öllum nemendum og kennurum, hvar sem þeir búa.

Ratleikir

Ratleikir er góð aðferð til að fá nemendur til að rannsaka nærumhverfi sitt. Þeir reyna á ratvísi, hugmyndaflug, skynjun og styrk þátttakenda. Kennarar geta útbúið sína eigin ratleiki en svo eru líka til tilbúnir ratleikur eins og sá sem Ferðafélagið hefur útbúið í Heiðmörk þar sem hægt er að skila inn svörum rafrænt.

Kennarar geta útbúið sína eigin rafrænu ratleiki með Turfhunt sem hægt er spila án netsambands en líka með nettengingu og GPS staðsetningarbúnaði (líkt og Seppo) en þá þurfa nemendur að nota síma því spjaldtölvurnar bjóða ekki upp á nettengingu nema með venjulegu WiFi.

Hér er ratleikur um miðbæ Reykjavíkur í Turfhunt.

Fyrir þá sem vilja fara í ratleiki í kapp við tímann þá er rathlaup upplagt.

Skógræktin

Á vef Skógræktarinnar má finna ýmis verkefni tengd útinámi. Má þar nefna Lesið í skóginn þar sem lögð er áhersla á að þátttakendur læri um skóginn, skoði hann og fjölbreyttar hliðar hans og ýmislegt námsefni fyrir börn og unglinga.

Sorpa

Endurvinnsla er mikilvægur þáttur til verndunar umhverfis og býður Sorpa nemendum að kynnast starfseminni. Hægt er að velja á milli þess að koma á skrifstofu SORPU og fá fyrirlestur og skoðunarferð um móttökustöðina (45 mín) eða heimsókn á endurvinnslustöð (30 mín). Hægt er að bóka fræðslu hér.

Vettvangsathuganir

Nemendur fara á einhvern ákveðinn stað og safna gögnum. Þetta geta verið umferðartalningar á bílum, hjólum og gangandi fólki eða talningar á dýrum. Nemendur geta tekið myndir af gróðri á hverjum degi yfir nokkra vikna tímabil eða verklegum framkvæmdum.

Niðurstöður kynntar fyrir samnemendum og jafnvel foreldrum líka.

Bjargir

Aðgengilegar hugmyndir frá Noregi um útikennslu.

Danskur vefur með margar hugmyndir sem auðveldlega er hægt að tengja spjaldtölvunni.

Fjaran og hafið fróðleikur um lífverur sem lifa í fjörum og hafinu.

Fuglavefurinn er alhliða fræðsluvefur um íslenska fugla.

Handbók um útikennslu og verkefni frá Landlæknisembættinu.

Lifandi náttúra – Lífbreytileiki á tækniöld  Verkefnasafn fyrir leikskóla og yngsta stig. Útikennsla, ræktun, lífbreytileiki.

PlantNet plöntugreinir.

Plöntuvefurinn Upplýsingar og myndir af rúmlega 100 íslenskum plöntutegundum.

Seek Plöntu- og dýragreinir.

Útikennsla.is er vefur um útikennslu og útinám í skólastarfi.

Ýmis mælitæki fyrir t.d. náttúrufræðikennslu frá Pasco.

Ýmis mælitæki fyrir t.d. náttúrufræðikennslu frá Vernier

Ýmis áhöld fyrir útikennslu frá A4.


Uppfært í júní 2022