Virkur í athugasemdum

Öppin

Aðalmálið hér er að vekja nemendur til umhugsunar um athugasemdakerfi fjölmiðla og skapa umræður og öppin því aukaatriði. Niðurstöðurnar geta nemendur sett fram í formi glærukynningar (Keynote eða Google Slides), texta í Pages eða Docs, myndband með iMovie, blogg- eða vefsíðu eða með öðrum hætti sem þeir eða kennarar kjósa.

Markmið

Athugasemdir á netmiðlum eru oft æði skrautlegar og margir sem ekki hika við að vera dónalegir og skrifa ærumeiðandi ummæli þó að þeir séu að skrifa undir nafni. Ástæður fyrir því eru margar en það er eins og sumir leyfi sér að hugsa upphátt og halda að þeir geti skrifað það á netið sem þeir ræða um á fámennri kaffistofu. Eða eins og þeir hafi annað sjálf eða persónuleika á netinu en í daglegu lífi.

Markmið með þessu verkefni er

• að nemendur velti fyrir sér kostum og göllum athugasemdakerfanna.

• að nemendur finni leiðir til að gera athugasemdakerfin jákvæðari og uppbyggilegri.

Undirbúningur

Þetta verkefni ætti að henta nemendum í 8.-10. bekk þar sem þeir hafa aldur til að skrifa athugasemdir sem eru yfirleitt tengdar samfélagsmiðlum. Verkefnið krefst ekki mikils undirbúnings en kennari getur opnað aðeins á umræðu á “virkan í athugasemdum” í upphafi kennslustundar.

Verkefnið

Nemendur fara á netmiðla t.d. visir.is, dv.is eða stundin.is en allir þessir miðlar leyfa athugasemdir við fréttir. Nemendur finna nokkrar fréttir þar sem margar athugasemdir hafa verið skrifaðar. Hér fyrir neðan eru nokkrar spurningar sem nemendur geta haft til hliðsjónar þegar þeir lesa athugasemdirnar.

Spurningar

  1. Eru fleiri jákvæðir en neikvæðir sem tjá sig í athugasemdunum?
  2. Er það algengt að þeir sem eru neikvæðir séu fjölmennari og/eða háværari? Ef svo er af hverju?
  3. Rökstyðja þeir sem skrifa athugasemdir mál sitt?
  4. Hefðu þeir átt að orða mál sitt með öðrum hætti?
  5. Á að ritstýra athugasemdum? (Ritstjóri þarf að samþykkja athugasemdir áður en þær eru birtar og/eða hendir út ósæmilegum athugasemdum.) Hverjir eru kostir og gallar við þá leið?
  6. Af hverju eru sumir fréttamiðlar með athugasemdakerfi en sumir ekki?
  7. Á að loka fyrir athugasemdir og hverjir eru kostir og gallar þess?
  8. Finndu frétt þar sem athugasemdirnar eru almennt jákvæðar og uppbyggilegar.
  9. Getur þú útskýrt af hverju athugasemdirnar eru jákvæðar?
  10. Hvernig er hægt að gera umræðuna í athugasemdum á netmiðlum almennt jákvæðari?

Úrvinnsla

Í lokin segja nemendur frá sínum niðurstöðum og rökstyðja mál sitt.


Uppfært í júní 2021