Bekkjarsáttmáli endurskoðaður

Öppin:

Í þessu verkefni er mælt með að nota appið Keynote til að setja inn punkta eftir umræður í hópum. Síðan gætu Keynote glærurnar farið inn í Explain Everything þar sem nemendur kveikja á upptöku og segja frá hvernig og af hverju þeir komust að þessum niðurstöðum. Endurskoðaðan bekkjarsáttmála má til dæmis setja fram á rafrænu Pic Collage veggspjaldi.

Markmið:

• Að nemendur skoði bekkjarsáttmálann og ræði hvernig gangi að fara eftir honum.

• Að nemendur íhugi hvort gera þurfi breytingar á sáttmálanum í ljósi reynslunnar.

• Að nemendur ræði hvort spjaldtölvur séu notaðar á ábyrgan og skynsamlegan hátt í bekknum.

• Að nemendur ræði hvað sé rétt og ábyrg notkun spjaldtölva og annarrar tækni.

• Að nemendur kynni foreldrum niðurstöðurnar.

Undirbúningur:

Kennari hafi bekkjarsáttmálann tiltækan og þær spurningar sem lagðar voru til grundvallar umræðu þegar bekkjarsáttmálinn var tekinn fyrir. Umræðupunktarnir í þeirri vinnu höfðu yfirskriftirnar:

• Myndatökur

• Notkun í annað en nám

• Tæki annarra

• Tími í tölvunni

• Notkun heima

Ef nota á Explain Everything appið þarf að skoða hvort allir nemendur hafi ekki örugglega aðgang að því appi. Allir nemendur á miðstigi eiga að vera með það í spjaldtölvunni sinni.

Verkefnið:

Kennari byrjar verkefnið á að rifja upp bekkjarsáttmálann með nemendum og tekur síðan umræðu um hvernig hafi gengið að framfylgja honum. Eftir snarpar umræður er bekknum skipt í fimm hópa og fær hver hópur eitt af þeim umræðuefnum sem fjallað var um á sínum tíma með áherslu á að endurskoða og gera breytingar ef á þarf að halda. Nemendur ræða málið í sínum hópi og komast að samkomulagi. Hópurinn býr til Keynote kynningu þar sem niðurstöður hópsins eru kynntar. Þar þarf að koma fram hvert viðfangsefnið er, hvort einhverjar breytingar þurfi að gera og færð rök fyrir því. Síðan er Keynote kynningin færð inn í Explain Everything og teknar upp nánari útskýringar við Keynote glærur hópsins þar sem fram koma rök fyrir niðurstöðum. Með þessu móti verður afrakstur vinnunnar lítið myndband.

Úrvinnsla og niðurstöður:

Í lokin koma allir hópar upp og kynna sitt efni, það skoðað í sameiningu, tekið til umræðu og breytingar samþykktar. Niðurstöðurnar eru bornar saman við “gamla” bekkjarsáttmálann sem í mörgum tilfellum hangir uppi í bekkjarstofum. Breyttur og endurbættur sáttmáli er gerður sýnilegur í heild sinni t.d. með því að nota Pic Collage appið þar sem sáttmálinn er settur upp á smekklegan hátt með texta og myndum sem vísa til atriða hans. Myndböndunum er steypt saman í eina heild og send til foreldra ásamt Pic Collage veggspjaldinu. Veggspjaldið má einnig prenta út til að það sé sýnilegt í stofunni. Ef bekkurinn notar Google Classroom er tilvalið að koma afrakstri þessarar vinnu fyrir þar.

Uppfært í júní 2019