Bekkjarsáttmáli endurskoðaður

Þegar nemendur fengu spjaldtölvur í 5. bekk var gerður bekkjarsáttmáli. Mælt er með því að hann sé endurskoðaður árlega enda er nauðsynlegt að ræða ábyrga notkun á upplýsingatækni reglulega. Hér eru nokkrar hugmyndir hvernig hægt er að standa að því.

Markmið

  • Að nemendur skoði bekkjarsáttmálann og ræði hvernig gangi að fara eftir honum. 
  • Að nemendur íhugi hvort gera þurfi breytingar á sáttmálanum í ljósi reynslunnar.
  • Að nemendur ræði hvort spjaldtölvur séu notaðar á ábyrgan og skynsamlegan hátt í bekknum. 
  • Að nemendur ræði hvað sé rétt og ábyrg notkun spjaldtölva og annarrar tækni. 
  • Að nemendur kynni foreldrum niðurstöðurnar. 

Undirbúningur kennarans

Mikilvægt er að kennari taki afstöðu til þeirra þátta sem eru til umræðu í þessu verkefni og kynni sér ennfremur hvaða viðhorf séu ríkjandi til þeirra í skólanum. Kennari hafi bekkjarsáttmálann tiltækan og þær spurningar sem lagðar voru til grundvallar umræðu þegar bekkjarsáttmálinn var tekinn fyrir en þær voru:

1. Myndatökur og myndbirtingar

2. Spjaldtölvur og afþreying

3. Virðing fyrir tækjum

4. Tími í tölvunni

5. Notkun í kennslustund

6. Notkun heima


Verkefnið

Kennari byrjar á að rifja upp bekkjarsáttmálann með nemendum og tekur síðan umræðu um hvernig hafi gengið að framfylgja honum. Eftir snarpar umræður er bekknum skipt í þriggja til fimm manna hópa og ræða nemendur hvaða ákvæði þarf að endurskoða og koma með tillögur að orðavali.

Hópurinn býr til kynningu í Keynote eða öðru appi þar sem niðurstöður hópsins koma fram og kynna fyrir bekkjarfélögum. Þar þarf að koma fram hvert viðfangsefnið er, hvort einhverjar breytingar þurfi að gera og færð rök fyrir þeim. 

Þegar allir hóparnir hafa kynnt sínar tillögur þurfa nemendur að koma sér saman um nýja bekkjarsáttmála undir styrkri handleiðslu kennara.

Að síðustu tekur kennari saman reglurnar, prentar þær út og hengir upp í kennslustofunni og í öðrum rýmum þar sem nemendur nota spjaldtölvur í námi. Einnig er upplagt að taka mynd af þeim og setja í Google Classroom eða gera aðgengilegar nemendum með öðrum rafrænum hætti.

Tilvalið er að senda sáttmálann til foreldra og hvetja þá til að ræða þessi mál við börnin sín.


Uppfært í ágúst 2020