Öppin
Í þessu verkefni hafa nemendur val um tvö öpp sem henta vel til skapandi vinnu, en það eru kvikmyndagerðarappið iMovie og tónlistarappið Garageband. Bæði öppin eru frá Apple og fylgja spjaldtölvunum.
Markmið
- Að nemendur geri sér grein fyrir því að efni á netinu kann að vera eign annarra.
- Að nemendur velti fyrir sér álitamálum sem tengjast höfundarrétti.
- Að nemendur efli samvinnufærni og setji fram hugleiðingar sínar á skapandi hátt.
- Að nemendur séu í stakk búnir til að ræða við foreldra um þessi mál.
Undirbúningur
Nemendur vinna verkefnið í sínum spjaldtölvum og skila til kennara t.d. í Google Classroom eða senda með loftskeytabúnaðinum Airdrop.
Verkefnið
Bekknum er skipt í sex hópa og fær hver hópur eina af þeim klípusögum sem fylgja hér á eftir. Kennari metur hver sé hæfilegur tími til að ljúka verkefninu, en það gæti verið á bilinu ein til þrjár kennslustundir. Verkefni nemendanna er einfalt og opið:
Notið iMovie til að gera stuttmynd eða Garageband til að gera útvarpsleikrit, þar sem þið setjið fram ykkar túlkun á klípusögunni og þá lausn sem ykkur finnst réttust. Mikilvægt er að skrifa niður handrit áður en tökur hefjast.
Nemendur þurfa að:
1. Koma sér saman um söguþráð með upphafi, miðju og endi.
2. Skipta með sér verkum: hver leikur, hver sér um tæknivinnu, hver stjórnar.
3. Ráðast í upptökur og eftirvinnslu.
4. Skila kláruðu verki til kennara með rafrænum hætti.
Úrvinnsla
Nemendur kynna verkefni sín fyrir bekknum. Kennari deilir verkefnum með foreldrum á þann hátt sem allir eru sáttir við en myndbandaskrár eru yfirleitt of stórar til að senda í tölvupósti. Í stað þess er hægt að birta þau á netinu t.d. á lokaðri YouTube rás en allir kennarar og nemendur í 5.-10. bekk geta stofnað sína eigin YouTube rás með Google aðganginum sínum. Annar möguleiki er að deila Google Drive möppu með skránum eða einfaldlega bjóða foreldrum að heimsækja bekkinn.
Klípusögurnar
1. Dúddi er mikill aðdáandi Star Wars myndanna og langar mikið til að sjá þessa nýju. Dúddi býr á Kópaskeri og veit að myndin verður ekki lengur í bíó næst þegar hann fer suður. Vinur Dúdda segir honum frá Torrent – leið til að sækja sér bíómyndir á netinu án þess að borga. Dúddi veit að þetta er ekki löglegt en langar svo voðalega mikið til að sjá myndina.
2. Didda er ung og upprennandi tónlistarkona og ætlar að verða rappari. Hún er farin að búa til sín eigin lög og fékk frábæra hugmynd að undirspili við nýjasta rapptextann sinn. Hugmyndin er að taka diskókaflann úr Eurovision-laginu „No prejudice“ með Pollapönki og búa til „lúppu“ sem hún rappar svo yfir. Didda spilar lagið fyrir vinkonur sínar og þeim finnst þetta koma mjög flott út en eru ekki vissar um að Didda megi þetta. (Athugið að haft var samband við Pollapönkara og gáfu þeir góðfúslegt leyfi til þess að lagið væri notað í þessu verkefni.)
3. Daddi er áhugasamur nemandi og samfélagsfræði er uppáhalds námsgreinin hans. Bekkurinn hans Dadda hefur verið að vinna þemaverkefni um seinni heimsstyrjöldina og hópurinn hans Dadda er að búa til bloggsíðu um árásina á Pearl Harbour. Daddi veit að það er hægt að finna heilmikinn fróðleik um árásina á netinu og leggur til við hópinn að þau noti sér það og „copy-peisti“ texta af Wikipediu inn á bloggsíðuna. Kennaranum finnst textinn grunsamlega ítarlegur og fer að skoða málið betur.
4. Dísa og vinkonur hennar elska Lego Friends og þær hafa líka mikinn áhuga á dansi. Þær eru búnar að semja mjög flottan dans við stefið úr Lego Friends og gera myndband af sjálfum sér að dansa. Þær ákveða að skella myndbandinu á YouTube. Seinna, þegar þær ætla að sýna vinum sínum myndbandið er búið að fjarlægja það af YouTube og þær verða mjög hissa.
5. Doddi er að vinna að verkefni um Dalvík og ætlar að gera vefsíðu um helstu staðhætti. Hann gúgglar nokkrar myndir sem hann setur á vefsíðuna. Nokkrum mánuðum seinna fær hann rukkun frá lögfræðingi uppá 40 þúsund fyrir að hafa notað mynd í leyfisleysi. Pabbi Dodda verður ekki sáttur en þarf að borga.
6. Dóra er í smíði. Hún skoðar Pinterest síðu og sér mynd af Krumma sem er hannaður af Ingibjörgu Bjarnadóttur. Hún prentar út mynd og ætlar að saga út eins verk en kennarinn stoppar hana og útskýrir hvers vegna þetta er ekki í boði.
Uppfært í júní 2021