Netávani

Öppin:

Í þessu verkefni búa nemendur til rafbók. Hægt er að vinna hana í Pages, Google Docs eða Book Creator. Allir nemendur og kennarar í grunnskólum Kópavogs eiga að hafa þessi öpp í spjaldtölvum sínum.


Markmið:

• Að nemendur geri sér grein fyrir því að sumir geta lent í vandræðum með net- og tölvunotkun sína.

• Að nemendur velti fyrir sér til hvaða úrræða sé hægt að grípa ef einhver lendir í vandræðum.

• Að nemendur efli samvinnufærni og setji fram hugleiðingar sínar á skapandi hátt.

• Að nemendur séu í stakk búnir til að ræða við foreldra um þessi mál.

Undirbúningur:

Eins og endranær eru umræður um viðfangsefnið nauðsynlegar. Verkefnin sjálf eru ekki unnin í tæki kennarans en nemendur þurfa að geta skilað þeim til kennara. Þá er hægt að notast við Google Classroom eða loftskeyti (Airdrop).

Verkefnið:

Nemendur lesa sér til um netávana, einkenni og úrræði á þeim vefsíðum sem gefnar eru upp hér fyrir neðan. Gott er að nemendur komi saman í litlum hópum að lestri loknum og ræði saman, skiptist á skoðunum og viðhorfum.

Heilsa og velferð

Netávani meðal ungmenna í Evrópu

Netávani meðal unglinga í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi

Nemendur eiga síðan að útbúa rafbók sem hægt sé að nota í forvarnarskyni. Mælt er með að foreldrum séu send eintök af rafbók síns barns og að nemendur séu upplýstir um það í upphafi að slíkt standi til.

Hver nemandi á að útbúa sína eigin rafbók en heimilt er að leyfa nemendum að hjálpast að. Rafbókin á að innihalda:

  • Texta
  • Myndir
  • Myndband – tekið af netinu eða frumsamið eftir því sem efni standa til
  • Hlekk á vefsíðu með nánari upplýsingum
  • Spurningar til foreldra
  • Upplestur nemanda á hluta textans

Úrvinnsla:

Nemendur gætu kynnt verkefni sín fyrir bekknum og svo gæti kennari einnig deilt afrakstrinum með foreldrum. Gott er að foreldrum sé bent á hvert sé hægt að leita ef áhyggjur af tölvunotkun barna vakna. Eins og með önnur hagsmunamál nemenda er umsjónarkennari fyrsti póstur en getur eftir atvikum vísað málum áfram til námsráðgjafa, skólasálfræðings eða nemendaverndarráðs ef um alvarleg mál er að ræða.


Uppfært í júní 2021