Samfélagsmiðlar

Öppin

Í þessu verkefni er notast við öppin Google Docs og Google Classroom.

Markmið

• Að nemendur geri sér grein fyrir kostum og göllum samfélagsmiðla

• Að nemendur átti sig á aldurstakmörkunum sem þar gilda

• Að nemendur viti hvað rafrænt fótspor er

• Að kennarar, nemendur og foreldrar geti tekið upplýsta ákvörðun um notkun samfélagsmiðla

Undirbúningur

Mælt er með að kennarar ræði saman sín á milli og við stjórnendur því hver skóli þarf að koma sér saman um hvaða reglur eigi að gilda um notkun á samfélagsmiðlum. Sú stefna sem lögð var upp með í spjaldtölvuinnleiðingunni í upphafi og er enn í gildi er að í skólastarfi eigi ávallt að virða aldurstakmarkanir og ekki sé notast við öpp í kennslu sem nemendur hafa ekki aldur til að nota. 

Notkun appa í frítíma nemenda og heima fyrir er á ábyrgð foreldra. Hlutverk skóla er að fræða nemendur um ábyrga tölvunotkun en ekki að stunda löggæslu og eftirlit með því hvaða efni er inni á tækjum einstaka nemenda. Aldurstakmarkanir á samfélagsmiðlum eru í flestum tilvikum þau sömu eða 13 ár.

Kennarar hafa frjálsar hendur um það hve mikla innlögn kynningin á að innihalda. Aðalatriðið er umræða í bekknum með virkri þátttöku nemenda.

Kennari setur spurningarnar tíu sem eru hér fyrir neðan í Docs-skjal og setur í Google Classroom. Hann skiptir nemendum í þriggja manna hópa og hópurinn þarf að velja sér hópstjóra. Hópstjóri sækir skjalið í Google Classroom og deilir skjalinu með hinum í hópnum (Share) svo að allir í hópnum séu virkir og geti skrifað í sama skjalið. Nemendur mega nota netið og gúggla t.d. um aldurstakmarkanirnar og rafræna fótsporið.

Hópstjóri skilar skjalinu til kennara í Google Classroom þegar verkefni lýkur.

Spurningarnar

  1. Hvað eru samfélagsmiðlar?
  2. Hvaða samfélagsmiðla eruð þið að nota?
  3. Hvaða aldurstakmarkanir (age limit) eru á þessum samfélagsmiðlum sem þið notið?
  4. Hverjir eru kostirnir við samfélagsmiðla?
  5. Hverjir eru gallarnir við samfélagsmiðla?
  6. Er munur að ræða við einstakling í netheimum og í raunheimum?
  7. Eru einhver mörk í samskiptum fólks?
  8. Þeir sem fara yfir mörkin, gera þeir sér grein fyrir því?
  9. Gera allir sér grein fyrir því að það sem fer á netið verður þar alltaf?
  10. Hvað er rafrænt fótspor?

Úrvinnsla

Kennari rennir yfir svör nemenda og metur hvort það þurfi að skoða og ræða einstök atriði betur t.d. hvað eigi að gera ef nemendur yngri en 13 ára eru á samfélagsmiðlum eða að einstaklingar fari yfir ákveðin mörk í samskiptum.

Langflestir nemendur yngri en 13 ára eru á einhverjum samfélagsmiðli og nær alltaf með vitund og samþykki foreldra. Snapchat er þar algengasti samfélagsmiðillinn og er mikilvægt að nemendur nýti sér öryggisstillingar og hafi samfélagsmiðilinn lokaðan fyrir öllum nema vinum sem þeir hafa “addað” og að þeir viti með fullri vissu hver er á bak við notendanafnið.


Uppfært í júní 2021