Vinátta

Öppin:

Í þessu verkefni búa nemendur til sögu og setja hana fram með myndrænum hætti. Hægt er að vinna hana í iMovie appinu sem fylgir með öllum iPad spjaldtölvum, en einnig má notast við annars konar öpp og búa til brúðumynd, nýta „green screen“ eða „stop motion“. Einnig gætu nemendur búið til teiknimyndasögu með teikningum eða ljósmyndum.

Markmið:

• Að nemendur geri sér grein fyrir því að einn af mögulegum fylgifiskum tæknivæðingar er aukin félagsleg einangrun

• Að nemendur velti fyrir sér mikilvægi þess að eiga í vináttusamböndum

• Að nemendur efli samvinnufærni og setji fram hugleiðingar sínar á skapandi hátt

• Að nemendur séu í stakk búnir til að ræða við foreldra um þessi mál

Undirbúningur:

Nemendur vinna verkefnið í sínum spjaldtölvum og skila til kennara t.d. í Google Classroom eða senda með loftskeytabúnaðinum Airdrop.

Eins og alltaf eru umræður um viðfangsefnið nauðsynlegar áður en hafist er handa. Kennari geri nemendum þá skýra grein fyrir markmiðum verkefnisins. Kennari skiptir nemendum í þriggja manna hópa og hugar að því við skiptinguna að hópar séu blandaðir með tilliti til félagslegs styrks nemenda, þ.e. missterkir nemendur séu saman í hópi. Þannig er líklegra að nemendur kynnist og myndi tengsl, sérstaklega þar sem verið er að vinna með vináttu.

Verkefnið:

Kennari ræðir við nemendur um þær breytingar sem geta orðið á samskiptum með tilkomu netsins, tölvunnar og leikjanna. Nemendur eru beðnir að velta þessu fyrir sér og nefna dæmi ef þeir þekki þau, um að samskipti í raunheimum minnki og fari í auknum mæli fram í gegnum tölvu.

Hugsanlega hafa einhverjir nemendur sjálfir upplifað einangrun eða að jafnaldrar og vinir séu hver í sínu horni spilandi leiki eða eigandi samskipti í gegnum þar til gerða miðla.

Kennari útskýrir að í öllu þarf að vera jafnvægi. Lífið byggist á að við náum jafnvægi í því sem við gerum og sama gildir með samskipti. Mikilvægt er að nemendur eigi samskipti í raunheimum. Það að kunna og ástunda samskipti er hluti af því að vera manneskja.

Viðfangsefni:

Nemendur vinna í þriggja manna hópum. Þeir búa til sögu þar sem viðfangið eru tiltekin verkefni er varða vináttu. Hver hópur velur sér myndrænan framsetningarmáta – myndband, myndasögu, brúðumynd eða annað. Hóparnir geta verið allt að tíu. Hver hópur fær eitt verkefni af tíu og eru þau sem hér segir:

  1. Þú verður að vera góður vinur … til að eiga góðan vin.
  2. Sannir vinir segja góða hluti um þig þegar þú ert ekki nærri og hreinskiptna hluti þegar þú ert nærri.
  3. Þeir sem elska þig eru þeir sem heyra í þér í þögninni.
  4. Elskaðu alla, treystu fáum en gerðu engum mein.
  5. Að kunna að deila með sér.
  6. Þeir eru ríkir sem eru vinir.
  7. Það er lítið varið í ævintýri ef þú deilir þeim ekki með vinum.
  8. Að gæta vinar síns.
  9. Vinur er sá er til vamms segir.
  10. Vináttan er eins og spegillinn og skugginn. Spegillinn lýgur aldrei og skugginn fer ekki.

Úrvinnsla:

Nemendur kynna verkefni sín fyrir bekknum hvort sem er í kennslustund eða á bekkjarkvöldi ef það hentar, enda verið að vinna með félagsleg tengsl.

Einnig er mælt með því að verkefnum sé deilt með foreldrum en þá er mikilvægt að rætt sé við nemendur og þeim gerð grein fyrir því að foreldrum verði sýndur afraksturinn.


Uppfært í júní 2021