Hagnýtar upplýsingar fyrir nemendur

Markmið innleiðingar spjaldtölva

Spjaldtölvur hafa á undanförnum árum sannað gildi sitt í skólastarfi víða um heim og mestu jákvæðu áhrifin verða þegar hver nemandi hefur sína eigin spjaldtölvu. Með því að nota spjaldtölvu í námi er vonast til að þú hafir meira val um hvernig þú vinnur verkefni og að námið verði skemmtilegra og fjölbreyttara og að þú getir lært á þann hátt sem hentar þér best.

Reglur um notkun spjaldtölvunnar

Spjaldtölvan sem þú ert með er fyrst og fremst námstæki. Þú átt að fara eftir fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla um notkun hennar.

Spjaldtölvan þín kemst sjálfkrafa á þráðlausa netið í skólanum sem heitir Kopavogur. Þú skalt ekki reyna að tengjast neinu öðru neti í skólanum. Ef þú ert í vandræðum með að tengjast netinu í skólanum, láttu þá kennara strax vita. Það er ekki leyfilegt að breyta netstillingum í spjaldtölvunni.

Fyrir utan skólatíma eru það foreldrar sem ráða hvað þú mátt vera lengi í tölvunni. Reyndu að finna hvað er hæfilega mikill tími fyrir þig og farðu eftir þeim reglum sem foreldrar eða forráðamenn þínir setja. Það er heldur ekki sniðugt að vera mikið í spjaldtölvunni seint á kvöldin. Þá á hún að vera í hleðslu svo þú getir notað hana í skólanum næsta dag.

Hvað er…?

Google Classroom er app þar sem kennari getur lagt fyrir verkefni eða sett inn áætlanir og gátlista. Þú getur einnig skilað verkefnum til kennara með þessu appi.

Lightspeed er notað af Kópavogsbæ til að halda utan um hver er með hvaða spjaldtölvu. Það er hægt að senda þér námsbækur og öpp í gegnum þetta kerfi og það sér líka um að þú fáir aðgang að þráðlausa netinu í skólanum. Ef nemandi sækir sér óleyfilegt app eða fiktar í netstillingum spjaldtölvunnar er hægt að sjá það í Lightspeed.

Kopavogur er nafnið á þráðlausa netinu sem þú átt að nota í skólanum. Önnur net eins og Kop-ipad og VodafoneHotspot átt þú ekki að nota.

App Store er netverslun Apple og þar getur þú fundið allskonar öpp. Sum eru ókeypis en önnur kosta peninga. Þú mátt sækja þér öpp í App Store ef það er opið hjá þér en mundu að virða aldurstakmörk.

Hvað áttu að gera ef það kemur eitthvað fyrir spjaldtölvuna? 

Mikilvægt er að þú gætir þess að fara vel með spjaldtölvuna og hafa hana alltaf í hulstrinu því það ver spjaldtölvuna ef hún dettur í gólfið.

Passaðu að það sé kveikt á Find my iPad sem er innbyggð þjófavörn og hjálpar þér að finna spjaldtölvuna ef hún týnist eða henni er stolið. 

Láttu kennarann þinn strax vita ef spjaldtölvan týnist, bilar eða skemmist. Kennarinn sér þá um að láta foreldra þína vita og ef þú þarft að fá aðra spjaldtölvu þá færðu hana eins fljótt og hægt er.

Nánari upplýsingar um bilanir og tjón eru hér.

Samfélagsmiðlar og leikir

Instagram, Snapchat, TikTok og fleiri öpp sem eru notuð til samskipta eru mjög vinsæl. Mörg af þessum öppum eru bönnuð börnum innan 13 ára. 

Skólinn leyfir ekki að nemendur noti öpp sem þeir hafa ekki aldur til að nota en öll öpp í App Store eru merkt með aldurstakmörkunum.

Nánari upplýsingar um aldurstakmarkanir á samfélagsmiðlum eru hér.

Mundu að fara varlega í öllum samskiptum við ókunnuga á netinu eða samfélagsmiðlum. Ekki gefa upplýsingar eins og heimilisfang eða símanúmer nema þú vitir við hvern þú ert að tala. Mundu líka að það sem þú segir og skrifar á netinu hverfur ekki. Ekki segja neitt á netinu sem þú myndir ekki segja ef manneskjan stæði fyrir framan þig.

Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvu

Hér eru nánari umgengnisreglur um spjaldtölvuna sem nefnast Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvu.


Uppfært í ágúst 2020