Hagnýtar upplýsingar fyrir nemendur

Markmið innleiðingar spjaldtölva

Spjaldtölvur hafa á undanförnum árum sannað gildi sitt í skólastarfi víða um heim og mestu jákvæðu áhrifin verða þegar hver nemandi hefur sína eigin spjaldtölvu. Með því að nota spjaldtölvu í námi er vonast til að þú hafir meira val um hvernig þú vinnur verkefni og að námið verði skemmtilegra og fjölbreyttara og að þú getir lært á þann hátt sem hentar þér best.

Reglur um notkun spjaldtölvunnar

Spjaldtölvan sem þú ert með er fyrst og fremst námstæki. Þú átt að fara eftir fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla um notkun hennar.

Spjaldtölvan þín kemst sjálfkrafa á þráðlausa netið í skólanum sem heitir Kopavogur. Þú skalt ekki reyna að tengjast neinu öðru neti í skólanum. Ef þú ert í vandræðum með að

tengjast netinu í skólanum, láttu þá kennara strax vita. Það er ekki leyfilegt að breyta netstillingum í spjaldtölvunni.

Fyrir utan skólatíma eru það foreldrar sem ráða hvað þú mátt vera lengi í tölvunni. Reyndu að finna hvað er hæfilega mikill tími fyrir þig og farðu eftir þeim reglum sem foreldrar eða forráðamenn þínir setja. Það er heldur ekki sniðugt að vera mikið í spjaldtölvunni seint á kvöldin. Þá á hún að vera í hleðslu svo þú getir notað hana í skólanum næsta dag.

Hvað er…?

Google Classroom er app þar sem kennari getur lagt fyrir verkefni eða sett inn áætlanir og gátlista. Þú getur einnig skilað verkefnum til kennara með þessu appi.

Lightspeed er notað af Kópavogsbæ til að halda utan um hver er með hvaða spjaldtölvu. Það er hægt að senda þér námsbækur og öpp í gegnum þetta kerfi og það sér líka um að þú fáir aðgang að þráðlausa netinu í skólanum. Ef nemandi sækir sér óleyfilegt app eða fiktar í netstillingum spjaldtölvunnar er hægt að sjá það í Lightspeed.

Kopavogur er nafnið á þráðlausa netinu sem þú átt að nota í skólanum. Önnur net eins og Kop-ipad og VodafoneHotspot átt þú ekki að nota.

App Store er netverslun Apple og þar getur þú fundið allskonar öpp. Sum eru ókeypis en önnur kosta peninga. Þú mátt sækja þér öpp í App Store en mundu að virða aldurstakmörk.

Hvað áttu að gera ef það kemur eitthvað fyrir spjaldtölvuna? 

Mikilvægt er að þú gætir þess að fara vel með spjaldtölvuna og hafa hana alltaf í hulstrinu því það ver spjaldtölvuna ef hún dettur í gólfið.

Passaðu að það sé kveikt á Find my iPad sem er innbyggð þjófavörn og hjálpar þér að finna spjaldtölvuna ef hún týnist eða henni er stolið. 

Láttu kennarann þinn strax vita ef spjaldtölvan týnist, bilar eða skemmist. Kennarinn sér þá um að láta foreldra þína vita og ef þú þarft að fá aðra spjaldtölvu þá færðu hana eins fljótt og hægt er.

Nánari upplýsingar um bilanir og tjón eru hér.

Samfélagsmiðlar og leikir

Instagram, Snapchat, TikTok og fleiri öpp sem eru notuð til samskipta eru mjög vinsæl. Mörg af þessum öppum eru bönnuð börnum innan 13 ára. 

Skólinn leyfir ekki að nemendur noti öpp sem þeir hafa ekki aldur til að nota en öll öpp í App Store eru merkt með aldurstakmörkunum.

Nánari upplýsingar um aldurstakmarkanir á samfélagsmiðlum eru hér.

Mundu að fara varlega í öllum samskiptum við ókunnuga á netinu eða samfélagsmiðlum. Ekki gefa upplýsingar eins og heimilisfang eða símanúmer nema þú vitir við hvern þú ert að tala. Mundu líka að það sem þú segir og skrifar á netinu hverfur ekki. Ekki segja neitt á netinu sem þú myndir ekki segja ef manneskjan stæði fyrir framan þig.

Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvu

1. Spjaldtölvan sem skilmálar þessir taka til er eign Kópavogsbæjar. Nemandinn hefur afnot af spjaldtölvu á starfstíma skóla, svo lengi sem nemandinn er skráður í grunnskóla í Kópavogi. Í lok hvers skólaárs skal nemandi skila spjaldtölvunni til skóla. Þegar spjaldtölvunni er skilað skal nemandi skrá sig út af Apple-auðkenni og iCloud-aðgangi sínum í tækinu. 

2. Kópavogsbær áskilur sér rétt til að innkalla spjaldtölvuna tímabundið vegna viðgerða eða þjónustu. Komi upp grunur um misnotkun eða brot á skilmálum þessum getur skóli, að höfðu samráði við foreldra/forráðamenn, óskað eftir að spjaldtölva sé innkölluð til að hreinsa af því óæskileg gögn eða yfirfara notkun. Skal nemanda þá úthlutað lánsspjaldtölvu á meðan svo ekki verði truflun á námi nemandans. 

3. Kópavogsbær setur upp á spjaldtölvunni forstillingar sem leyfa umsýslu og utanumhald sem nauðsynleg eru til að hægt sé að þjónusta spjaldtölvuna. Tækið er skráð á umsýslukerfi Kópavogsbæjar (Lightspeed) sem gerir kleift að senda námsefni og hugbúnað á spjaldtölvuna. Kópavogsbær annast þjónustu við spjaldtölvuna, þar með talið skráningu hennar á þráðlaust net í skóla samkvæmt reglum sem um það gilda. 

4. Til þess að hægt sé að nota spjaldtölvuna er nauðsynlegt að nemandi eigi Apple-auðkenni (AppleID) og sér Kópavogsbær um að stofna þann aðgang, auk netfangs sem tengist Apple-auðkenninu. Umsjónarkennara og foreldrum/forráðamönnum eru afhentar aðgangsupplýsingar (netfang og lykilorð) Apple-auðkennis. 

5. Þegar spjaldtölvan er afhent nemanda þarf að slá inn á tækinu lykilnúmer (passcode) sem Kópavogsbær úthlutar og notað er til að opna spjaldtölvuna. Umsjónarkennari og nemandi ásamt foreldrum/forráðamönnum fá þetta númer afhent. Ef nemandi breytir lykilnúmerinu síðar skal það gefið upp til umsjónarkennara og foreldra/forráðamanna. 

6. Nemanda er heimilt að taka spjaldtölvuna með sér heim að loknum skóladegi, en skal hafa hana með sér í skólann á hverjum degi, fullhlaðna. Nemandi ber ábyrgð á sínu hleðslutæki og snúru og er mælst til þess að það sé geymt heima. Glatist eða skemmist hleðslutæki og/eða snúra ber nemanda að útvega nýtt á eigin kostnað. Notkun spjaldtölvunnar heima fyrir til leikja eða tómstundaiðkunar skal vera í samráði við foreldra og skal nemandi fylgja þeim reglum sem foreldrar setja. Komi í ljós að mati skólans eða foreldra/forráðamanna að nemandi eigi í erfiðleikum með að fylgja reglum foreldra geta foreldrar/forráðamenn eða skóli ákveðið að tækið sé geymt í skólanum. 

7. Nemandinn og foreldrar/forráðamenn bera ábyrgð á meðferð og notkun spjaldtölvunnar meðan nemandinn hefur hana til afnota. Nemandi skal gæta þess að fara vel með spjaldtölvuna og sýna ábyrgð í notkun hennar. Komi í ljós að mati skólans eða foreldra / forráðamanna að nemandi eigi í erfiðleikum með þessa ábyrgð geta foreldrar / forráðamenn eða skóli ákveðið að tækið sé geymt í skólanum. 

8. Nemandi fær eitt hulstur afhent með spjaldtölvunni og er ekki heimilt að taka hana úr hulstrinu. Nemanda er heimilt að merkja hulstrið að vild án þess þó að eyðileggja það. 

9. Undir engum kringumstæðum má nota spjaldtölvuna á ólöglegan hátt. Ekki má setja í hana stolin forrit eða forrit sem breyta stýrikerfi þess, né heldur má nemandi nýta Apple-auðkenni sitt eða Find my iPad forritið til að eyða gögnum og stillingum af tækinu. Nemandi skal fara að reglum skóla hvað varðar myndatökur og myndbirtingar. 

10. Í spjaldtölvunni er námsefni og ýmis konar hugbúnaður (smáforrit) sem ætluð eru til námsvinnu nemenda. Nemandi hefur ekki aðgang að App store. Öll smáforrit í spjaldtölvum nemenda eru skráð í Lightspeed sem er miðlægt kerfi í umsjón tækniumarsjónarmanna.

Þegar spjaldtölvunni er skilað í lok skólaárs ber nemandi ábyrgð á að vista persónuleg gögn annars staðar, þar sem spjaldtölvan verður hugsanlega uppfærð og enduruppsett áður en hún er afhent á næsta skólaári og eyðast þá öll gögn af spjaldtölvunni. 

11. Ef spjaldtölvan bilar eða skemmist, týnist eða henni er stolið skal tilkynna það strax til skólans og útvegar Kópavogsbær nemandanum spjaldtölvu í staðinn. Sé um vísvitandi skemmdarverk eða þjófnað af hálfu nemandans að ræða skal nemandi bæta spjaldtölvuna. Ef spjaldtölva er tilkynnt týnd eða stolin er starfsfólki Kópavogsbæjar heimilt, í samráði við nemanda eða foreldri/forráðamann að nýta Find my iPad til að staðsetja spjaldtölvuna. 

12. Nú færist nemandi á milli skóla innan Kópavogsbæjar. Heldur hann þá áfram sömu afnotum af spjaldtölvunni og annast Kópavogsbær tilfærslu á skráningu spjaldtölvunnar innan tölvukerfis grunnskólanna.  

13. Nú flytur nemandi í annað sveitarfélag og hættir að stunda nám í grunnskólum Kópavogs. Skal hann þá skila spjaldtölvunni til skóla og skrá sig út af Apple-auðkenni og iCloud-aðgangi sínum í spjaldtölvunni.

14. Við útskrift úr grunnskóla er persónulegum skólaaðgangi nemanda að gögnum lokað eftir 6 mánuði og öllum gögnum þar inni eytt. Nemendur fá þá sendar leiðbeiningar um hvernig þeir geta breytt aðgangi sínum á Apple og iCloud reikningum og gert hann að persónulegum aðgangi til að varðveita gögnin sín.

15. Við útskrift úr grunnskóla fá nemendur leiðbeiningar um hvernig þeir vista persónuleg gögn annars staðar áður en spjaldtölvunni er skilað því öllum persónulegum gögnum nemandans verður eytt. Nemandinn ber ábyrgð á að bjarga gögnum sínum áður en þeir skila spjaldtölvunni. 


Uppfært í ágúst 2020