Hagnýtar upplýsingar fyrir foreldra

Markmið með notkun spjaldtölva í námi og kennslu

Eitt af meginmarkmiðum með notkun spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs er að gefa nemendum og kennurum kost á að nema á annan hátt en var sem og auka vægi sköpunar í skólastarfi. Þetta þýðir meðal annars að verið er að auka möguleika nemenda á að hafa meira um nám sitt að segja í krafti þess að leiðirnar að námsmarkmiðum eru fjölbreyttari. Verið er að auka aðgengi nemenda að upplýsingum og opna á að þeir geti numið það sem þeir vilja á þeirra forsendum og það sem er ekki kennt í skólanum. Verið er að efla þátt samvinnu í námi og kennslu og auka vægi merkingarbærra verkefna svo dæmi séu tekin. Spjaldtölvurnar eru því fyrst og fremst verkfæri til að fjölga námsleiðum, auka fjölbreytni í kennsluháttum sem og auka fjölbreytni nemenda í verkefnaskilum. Nemendur geta nú skilað verkefnum sínum sem myndband, sem teikning, sem hljóðskrá eða sem rafræn kynning. 


Í einfölduðu máli er því verið að breyta kennsluháttum þannig að það færist frá því að nemendur séu þiggjendur yfir í að þeir séu gerendur sem þýðir ennfremur einstaklingsmiðun því hver nemandi fær aukna möguleika að nema á eigin forsendum út frá sinni eigin áhugahvöt.

Nánari upplýsingar um hugmyndafræðina má finna á leiðbeiningarsíðu foreldra í kaflanum Fræðsluefni.

Spjaldtölvan sem nemandi fær afhenta er fyrst og fremst námstæki. Nemandi skal hafa spjaldtölvuna meðferðis í skólann á hverjum degi og fara eftir fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla um notkun hennar. Námsefni og hugbúnaði er dreift á spjaldtölvur nemenda með ýmsum leiðum, t.d. í gegnum Google Classroom kennslukerfið eða í gegnum Lightspeed umsýslukerfið.

Spjaldtölva nemanda hefur sjálfkrafa aðgang að þráðlausu neti í skólanum og er sú tenging örugg og varin gegn óæskilegu efni. Nemanda er ekki heimilt að breyta því hvernig spjaldtölvan tengist þráðlausu neti í skólanum.

Notkunarskilmála í heild má lesa hér

Afhending spjaldtölva í 5. bekk

Allir nemendur sem eru að hefja nám í 5. bekk fá iPad-spjaldtölvu til einkanota. Fyrst um sinn er spjaldtölvan geymd í skólanum. Spjaldtölvan er stillt þannig að nemendur geta ekki sett inn forrit að eigin vali. Nemendur fá ýmis verkefni sem unnin eru á skólatíma og fá einnig fræðslu um rétta og ábyrga notkun spjaldtölvunnar.

Þegar kominn er tími til að nemendur fari heim með spjaldtölvurnar fá foreldrar senda rafræna kynningu um helstu atriði varðandi spjaldtölvunotkun nemenda.

Helstu forrit

Google Classroom er pappírslaust kerfi sem sameinar t.d. tölvupóst, dagatal og skýjageymslu og veitir auk þess aðgengi að ýmsum forritum til ritvinnslu, glærugerðar, töflureiknings o.fl. Kerfið gerir kennara kleift að senda nemendum verkefni með rafrænum hætti, nemendur geta unnið einir eða saman að verkefnunum og sent til kennara, sem getur svo sent nemendum endurgjöf og umsagnir um verkefnin.

Lightspeed er umsýslukerfi sem gerir skólanum kleift að senda forrit og námsefni rafrænt til nemenda og kennara ásamt því að kerfið heldur utan um þann mikla fjölda spjaldtölva sem er í umferð í Kópavogi. Ennfremur nýtist kerfið ef spjaldtölva týnist eða henni er stolið. Auk þess auðveldar kerfið aðgengi að þráðlausu neti í skólum en aðeins tæki sem eru skráð í Lightspeed kerfið fá aðgang að öruggri nettengingu.

App Store er hugbúnaðarveita Apple og þar geta nemendur nálgast gríðarlegan fjölda forrita af ýmsu tagi. Svokallað Apple-auðkenni (AppleID) er aðgangur nemandans að veitunni og tengist sá aðgangur einnig Find my iPad, sem er innbyggð þjófavörn spjaldtölvunnar. App Store er lokað hjá nemendum í 5. og 6. bekk.

Notkun spjaldtölvunnar heima

Það er hlutverk foreldra og forráðamanna að ákveða reglur um notkun spjaldtölvunnar heima fyrir og það á að vera sjálfsagt mál að foreldrar fylgist með hvað er inni á spjaldtölvum barna sinna. Þess vegna fá foreldrar aðgangsorð og leyninúmer send frá umsjónarkennara þegar spjaldtölvurnar eru afhentar. Nemendum er ekki heimilt að breyta aðgangsupplýsingum án þess að láta foreldra og umsjónarkennara vita. 

Apple býður upp á þann möguleika fyrir notendur að tengja símanúmer við AppleID-aðganginn. Þetta getur valdið talsverðum töfum á þjónustu tölvudeildar Kópavogs og er því alls ekki mælt með því að þetta sé gert.

Stuðningur skóla

Allir nemendur fá fræðslu um rétta og ábyrga notkun tækninnar áður en spjaldtölvurnar eru afhentar og þeirri fræðslu verður einnig haldið áfram út skólagönguna. Mikilvægt er að gott samstarf sé milli foreldra og skóla um þessi mál og að foreldrar ræði við börn sín á öllum aldri um atriði á borð við myndatökur og myndbirtingar, samskipti á netinu og öryggi persónuupplýsinga.

Eins og fram kemur í skilmálum um afnot af spjaldtölvu er notkun þess á ábyrgð nemanda. Eigi nemandi í erfiðleikum með að axla þá ábyrgð þurfa foreldrar og skóli að vinna saman að lausn.

Hægt er að útbúa samning sem nemandi, kennari og foreldri/forráðamaður undirrita þar sem er kveðið á um hvernig notkun spjaldtölvunnar skuli háttað. Til dæmis má þannig setja reglur um hve lengi nemandi megi nota spjaldtölvuna sem leiktæki, hvenær eigi að leggja spjaldtölvuna frá sér á kvöldin, hvar hún skuli hlaðin á nóttunni (ekki við rúmið) og annað í þeim dúr.

Stundum getur það hjálpað að spjaldtölvan sé geymd í skólanum tímabundið. Þegar nemanda er treyst til þess að hafa spjaldtölvuna með heim er hægt að gera samning eins og lýst er hér að ofan. Einnig er hægt að leita ráða hjá námsráðgjafa skóla eða skólasálfræðingi ef þörf krefur.

Nánari upplýsingar um fjölskyldusamninga og skjátíma má finna á leiðbeiningarsíðu foreldra í kaflanum Fræðsluefni.

Notkun greiðslukorta

Þegar opnað verður fyrir App Store síðar á skólagöngunni geta foreldrar notað greiðslukort til að kaupa forrit í App Store ef áhugi er fyrir því. Afar mikilvægt er þó að kortanúmer sé hreinsað út af spjaldtölvunni til að fyrirbyggja óvæntan kostnað, en í sumum leikjum er til dæmis hægt að kaupa sér viðbætur innan forritsins.

Tæknileg úrræði

Hægt er að takmarka aðgengi nemenda að netinu heima fyrir með einföldum stillingum á netbeini heimilisins. Netþjónustufyrirtæki veita nánari upplýsingar hvernig það er gert.

Hægt er að stilla leitarvél í spjaldtölvunni svo hún takmarki aðgang að óæskilegu efni. Einnig geta ýmis konar píp og hljóð í spjaldtölvunni verið truflandi en einfalt er að slökkva á þeim. Hægt er að loka aðgengi nemanda að neti, myndavél eða App Store með stillingum og einnig er hægt að takmarka notkun spjaldtölvunnar við eitt app í einu.

Nánari upplýsingar um þessar stillingar má finna á leiðbeiningarsíðu foreldra í kaflanum Leiðbeiningarmyndbönd um stillingar í spjaldtölvunni

Nemendur eiga að koma með spjaldtölvuna fullhlaðna í skólann á hverjum degi. Best er að hlaða spjaldtölvuna yfir nótt í öðru herbergi en þar sem nemandi sefur.

Ef óhapp verður

Spjaldtölvan er eign Kópavogsbæjar og mikilvægt er að nemendur gæti þess að fara vel með hana. Allir nemendur fá afhent hulstur með spjaldtölvunni og skal hún ætíð geymd í hulstrinu, enda er hún þannig varin gegn höggskemmdum. Eins er mikilvægt að ávallt sé kveikt á Find my iPad sem er innbyggð þjófavörn og gerir kleift að rekja staðsetningu spjaldtölvunnar ef hún týnist eða henni er stolið. Komi það fyrir eða ef spjaldtölva verður fyrir bilun eða skemmd, skal tafarlaust láta skóla vita og er þá best að hafa samband við umsjónarkennara sem leiðbeinir um næstu skref. Reynt verður að úthluta nemandanum sambærilegri spjaldtölvu sem allra fyrst. Ekki verður krafist bóta fyrir skemmd tæki nema um sé að ræða vísvitandi skemmdarverk af hálfu nemandans, hvort sem er á eigin tæki eða annarra.

Nánari upplýsingar um bilanir og tjón eru hér.

Notkunarskilmála í heild má lesa hér

Uppfært í október 2020