Hagnýtar upplýsingar fyrir foreldra nemenda í 1.-4. bekk

Markmið innleiðingar spjaldtölva

Tilgangur þess að afhenda nemendum spjaldtölvur er fyrst og fremst að bæta nám og kennslu í grunnskólum Kópavogs. Notkun spjaldtölva í námi hefur á undanförnum árum sannað gildi sitt í skólastarfi víða um heim og sýnir reynslan að mestu jákvæðu áhrifin verða þegar nemendur hafa sína eigin spjaldtölvu til umráða í stað þess að deila aðgengi að henni með öðrum nemendum. Í Kópavogi hefur verið farin blönduð leið, þ.e. að nemendur á mið- og unglingastigi fá spjaldtölvur til einkanota en nemendur á yngsta stigi hafa aðgang að svokölluðum bekkjarsettum sem kennari getur fengið til afnota í afmörkuð verkefni. Stefnt er að því að nemendur í yngri stigum fái einnig spjaldtölvur til einkanota í nánustu framtíð og er vinna þegar hafin í því að ná því markmiði.

Meðal þess ávinnings sem stefnt er að með notkun spjaldtölva má nefna aukna einstaklingsmiðun náms, fjölbreyttari verkefni með aukinni áherslu á skapandi skólastarf og nýsköpun sem og að námið verði merkingarbærara en áður og færist þar með nær daglegu lífi nemenda.

Spjaldtölvan á yngsta stiginu

Eitt af meginmarkmiðum spjaldtölvuverkefnisins er að aukin notkun spjaldtölva í námi leiði til breyttra kennsluhátta í grunnskólastarfi. Einnig að nám og kennsla sé í takt við þá færni sem er við hæfi og viðgengst í því samfélagi sem börn og ungmenni alast upp við. Spjaldtölvur er hægt að nota með góðum árangri hjá ungum nemendum, hún bætist einfaldlega við sem eitt af þeim verkfærum sem kennarar hafa í grunnskólanum til að útfæra verkefni, þjálfa færni og koma til móts við mismunandi þarfir nemenda.

Í yngri bekkjum er hægt að samtvinna vinnu með spjaldtölvum við margt sem verið er að fást við í daglegu starfi. í 1.-4. bekk eru nemendur strax vandir við að nýta spjaldtölvuna í námi sínu og mikil áhersla er á að þeir læri að umgangast hana rétt og fyrst og fremst sem námstæki.  Þeir fá góða þjálfun í notkun hennar og hún verður því eðlilegur þáttur í skólastarfi frá byrjun.

Spjaldtölvur í bekkjarsettum

Spjaldtölvan getur nýst í öllu námi á öllum stigum. Á yngsta stigi er notast við bekkjarsett með ákveðnum fjölda spjaldtölva. Fjöldi spjaldtölva í bekkjarsetti í hverjum skóla er reiknaður út sem hlutfall af nemendafjölda á þessu stigi og síðan hefur fleiri tækjum gjarnan verið bætt við með tímanum. Margir skólar hafa þann háttinn á núna að vera með spjaldtölvu á hvern nemanda í 3. og 4. bekk (1:1).

Nemendur í 1.- 2. bekk hafa einnig gott aðgengi að spjaldtölvum og í sumum skólum hefur náðst að hafa einnig eina tölvu á hvern nemanda. Í nánustu framtíð munu bekkjarsettin sennilega alveg hverfa af sjónarsviðinu og nemendur fá í hendur sína eigin spjaldtölvu til einkanota frá byrjun skólagöngu.

Verum vakandi strax frá byrjun

Strax á yngstu stigum er nemendum kennt hvað felst í góðum umgengnisvenjum á netinu og m.a. er rætt um myndatökur og mikilvægi þess að biðja um leyfi fyrir myndbirtingu. Einnig  er nemendum bent á að þeir eigi ekki að gefa upp persónuupplýsingar á netinu. Umræða er um aldurstakmarkanir á mörgum síðum og öppum sem beri að virða. Nauðsynlegt er að foreldrar taki líka umræðu um þessa atriði heima fyrir. Þetta er umræða sem þarf að endurtaka því góð vísa er aldrei of oft kveðin.

Hér má finna nánari upplýsingar fyrir foreldra um notkun spjaldtölvunnar heima fyrir.

Hvernig er spjaldtölvan nýtt í námi og kennslu á yngsta stigi?

Spjaldtölvan nýtist í öllum námsgreinum á yngsta stigi og styður við einstaklingsmiðað nám og skapandi starf. Með smáforritum er hægt að æfa grundvallaratriði í stærðfræði, þjálfa lestur og skrift með því að hlusta, lesa upp, finna hljóð og stafi og draga rétt til stafs. Í samfélags- og náttúrufræðum eru nemendur m.a. æfðir í upplýsingalæsi með spjaldtölvunni sem bæði felst í að njóta myndefnis og leita upplýsinga. Tungumálanám verður auðveldara með viðeigandi smáforritum.

Á yngsta stigi er líka hægt að gera verkefnin enn meira skapandi með því að vinna í upptökum, búa til tónlist, gera rafbækur um tiltekin viðfangsefni, útbúa kynningar, semja rafræn leikrit og þannig má lengi telja. Nemendur hafa einnig meira val um hvaða leið er farin í úrvinnslu verkefna. Margir kennarar á yngsta stigi hafa nefnt að það sé dýrmætt að sjá gleðina í augum nemendanna þegar þeir fái tækifæri til að vinna að verkefnum á skapandi hátt með hjálp spjaldtölvunnar og á sínum forsendum. 

Smáforrit sem eru notuð á yngsta stigi eru t.d. Book Creator, Leikum og lærum, Galdrabúðin, Clips, Math Magic, iMovie, Puppet Pals og Seesaw svo fátt eitt sé nefnt.

Nánar um smáforrit er hér.

Einstaklingsmiðun

Einn af styrkleikum spjaldtölvunnar er að hún hentar afar vel fyrir nemendur með sérþarfir. Með spjaldtölvunni er hægt að þjálfa margs konar færni, aðlaga verkefni hverjum og einum nemanda og skoða árangur markvisst. Hér má nefna smáforrit eins og Voice Dream sem getur boðið upp á upplestur á hvaða texta sem er með íslenskri rödd sem hentar fyrir hæglæs börn eða börn með lesblindu og einnig smáforritið Bitsboard sem gefur færi á að einstaklingsmiða verkefni.

Óformlegt nám með spjaldtölvum

Spjaldtölvan er námstæki sem nýtist nemendum til þess að sækja sér fróðleik eða upplýsingar um margt annað en það sem er á dagskrá í skólanum. Mörg dæmi eru um að nemendur nýti sér spjaldtölvuna í þessum tilgangi t.d. í tengslum við listir og íþróttir, í tungumálanámi eða önnur áhugamál.

Einnig má benda á að fjölmargir leikir fyrir spjaldtölvur geta stutt við nám t.d. við þjálfun rökhugsunar og formskynjunar.


Uppfært í júní 2022