Hér eru nokkrar hugmyndir og kveikjur hvernig hægt er að vinna með stafræna borgaravitund með nemendum. Athugið að þetta eru hugmyndir en best er að hver kennari útfæri þær þannig að þær henti honum sjálfum og nemendum. Einnig er hægt að útfæra þær sem heimavinnu nemenda og/eða foreldra. Í öllum köflunum er vísað í fréttir eða annað efni sem tengist daglegu lífi okkar allra.

Á vefnum Námsefni í stafrænni borgaravitund má líka finna mikið af efni sem er skipt niður eftir árgöngum.

Hér eru kennsluhugmyndir í stafrænni borgaravitund fyrir yngsta stig.

Þessa spurningu er gott að hafa stöðugt bak við eyrað þegar neðangreind verkefni eru skoðuð: Hvernig myndir þú vinna með þessa frétt eða viðfangsefni með þínum nemendum?


1. Myndir

Með almennri útbreiðslu snjalltækja þá hafa myndatökur og myndbirtingar aukist til muna. Það verður til þess að myndir birtast af einstaklingum í óþökk þeirra eða særa blygðunarkennd þeirra sem á horfa.

Viðmið um myndbirtingar á heimasíðum grunn- og leikskóla í Kópavogi.

Hér er frétt um hvað kennarar geta verið varnarlausir gagnvart myndatökum nemenda. Hvað geta kennarar og nemendur gert til þess að allir séu sáttir?

Myndbirtingar af vettvangi slysa eru umdeildar og mörkin óljós hvenær er viðeigandi að birta mynd og hvenær ekki. En fréttamyndir eru í eðli sínu ekki fallegar og hér er smá hugleiðing um myndbirtingar af hörmungum almennt.

Myndin af þriggja ára sýrlenska drengnum sem drukknaði við strendur Grikklands árið 2015 fór víða.

Hér er önnur frétt um meðvitundarlausa heróínfíkla með barn í bíl. Gilda önnur lögmál um myndbirtingar af útlendingum?

Júlía Birgisdóttir varð fyrir því að maður sem hún átti í sambandi við fyrir nokkrum árum tók upp myndband af henni án hennar vitneskju þegar þau sváfu saman og setti á netið. Hún er ekki nafngreind á myndbandinu, sem hún segir nú að finna á mörg hundruð erlendum klámsíðum. Þegar myndir eru einu sinni komnar í dreifingu er ekki hægt að loka á þær. Það er alltaf einhver sem á afrit sem setur þær á nýja vefsíðu þegar einni er lokað.

Meira að segja er ekki alltaf hægt að treysta æskuvinum sem geta tekið upp á því að selja myndir af þér eða börnunum þínum ef þú ert fræg persóna.

Eftirlitsmyndavélar eru víða og ekki allar löglegar. Getur maður eitthvað gert í því?

Þú mátt taka myndir af þér og setja á netið en það verður að athuga hvort fleiri séu á myndunum sem ekki vilja láta birta myndir af sér.

Fleiri verkefni um myndir er í kafla 8 um höfundarrétt hér fyrir neðan og hér eru nokkrar vefsíður sem fjalla um myndbirtingar með einum eða öðrum hætti.

2. Reglur og sáttmálar

Skólasamfélagið þarf að ræða hvaða reglur eiga að gilda um tækni í skólastarfi og heima. Kennurum er bent á að eiga samræðu við nemendur um hvaða reglur eða samkomulag (sáttmáli) eigi að gilda um spjaldtölvur og snjalltæki, bæði í skóla og heima og gera með sér sáttmála.

Ná gildandi skólareglur utan um tæknina og eru þær kannski nóg?

Má taka spjaldtölvur af nemendum ef þeir brjóta reglur?

  • Í skóla
  • Heima

Í hvaða tilvikum þarf þess?

Hvað með snjalltæki í eigu nemenda?

Umboðsmaður barna skrifar um snjalltækjabönn og hvort og þá í hvaða tilvikum það er heimilt að taka tækin af nemendum.

Samkvæmt umboðsmanni barna mega kennarar ekki taka af nemendum eignir þeirra í skólastofum nema það stofni öryggi nemenda í hættu.

Eftir að hafa rætt þessi mál við nemendur er gott að gera  sáttmála undir handleiðslu kennara. Sáttmálinn ætti að vera hluti af stærri sáttmála, bekkjarsáttmála nemenda þar sem það á við (sbr. Uppbyggingarstefnan). Ef nemendur sjálfir koma að sáttmálanum er mun líklegra að þeir haldi hann. Í framhaldinu er æskilegt að upplýsa foreldra um þetta ferli og leyfa nemendum að ræða þessi mál heima.

Hér er dæmi um innihald sáttmála um upplýsingatækni í skólastarfi sem byggir á gildum skóla.

3. Foreldrar og börn

Börn í skóla eru ekki bara nemendur heldur eiga þau sitt líf líka fyrir utan skóla og eru þá á ábyrgð foreldra sinna. Mörg börn og unglingar verja meiri tíma í hinum stafræna heimi heldur en með foreldrum sínum. Hlutverk skólans er að styðja foreldra í hlutverki sínu í þessu sambandi. Það gerir skólinn með því að:

  • Fræða og styðja við foreldra til að þeir verði í stakk búnir að kenna börnum sínum stafræna borgaravitund.
  • Upplýsa foreldra um mikilvægi stafrænnar borgaravitundar og að það sé nauðsynlegt að kenna börnum hana.
  • Gera foreldra betur í stakk búna til að kenna börnum sínum ábyrga notkun tækja sem skólinn sendir heim með nemendum og kynna fyrir þeim þær reglur sem gilda um ábyrgð, notkun og meðferð. 
  • Eiga í góðu samstarfi við foreldra um tækninotkun nemenda.

Á vefsíðu Heimilis og skóla er hafsjór af upplýsingum um líf barna í stafrænum heimi. Kennari og nemendur geta sem dæmi rennt saman yfir efni bæklingsins Börn og miðlanotkun og valið þar verkefni (spurningar, samræður) sem þau vinna með foreldrum sínum. Hægt er að styðjast við eftirfarandi spurningar í samræðum um netnotkun: 

  • Hvernig á að hegða sér á netinu?
  • Gilda aðrar reglur á netinu en í öðrum samskiptum?
  • Hvernig veistu hvort þú getir treyst vini á netinu?
  • Hvað áttu að gera ef þú lendir í einelti á netinu?

Hugleiðingar fyrir foreldra:

  • Hve mikið fylgist þú með netnotkun barns þíns? 
  • Þekkir þú leiðbeiningarnar/reglur skólans?
  • Hefur þú áhyggjur af netnotkun, t.d. vegna tímaeyðslu eða af því að farið sé út fyrir siðferðismörk samskipta? 
  • Hefur þú tillögu um hvernig hægt sé að styrkja jákvæða netnotkun í bekknum? 

Til að styðja við foreldra í samræðunni er hægt að benda á hagnýtt, útgefið efni á vef til stuðnings eins og “Skjárinn og börnin” á vefnum Heilsuvera.

4. Samfélagsmiðlar og netnotkun

Vissir þú að foreldri þarf að fá leyfi hjá unglingnum sínum til að birta myndir af honum á Facebook?

Í Bandaríkjunum gilda svokölluð COPPA lög sem eiga að vernda börn yngri en 13 ára fyrir óæskilegu efni á netinu. Þess vegna eru samfélagsmiðlar eins og Facebook, TikTok, Snapchat, Instagram og fleiri með 13 ára aldurstakmark.

Nú eru margir nemendur yngri en 13 ára á samfélagsmiðlum og í langflestum tilvikum með leyfi foreldra. Hvernig á skólinn að taka á því eða á hann að skipta sér af því?

  • Eru til samfélagsmiðlar sem nemendur (unglingar) ættu ekki að vera á?
  • Er munur að tjá sig á netinu eða augliti til auglitis?
  • Er mikilvægt að kenna nemendum um stafræn fótspor (digital footprints)?

Hér eru nánari upplýsingar um aldurstakmörk á samfélagsmiðlum.

Samkvæmt reglum Facebook þá mega notendur ekki birta myndir af nöktu fólki. Af þeirri ástæðu var lokað á birtingu sögulegrar ljósmyndar úr Víetnam stríðinu af nakinni stúlku sem slapp lifandi frá Napalm sprengju. Hér er líka íslenskt dæmi þar sem Unnsteinn Manuel er með syni sínum sem er ber að ofan og þess vegna fjarlægði Instagram myndina.

Á að gera undantekningu í þessum tilvikum? Og ef svo er, hvar eru mörkin og hver setur þau?

Hér eru ýmsar vefsíður sem fjalla um samfélagsmiðla.

5. Tælingar og svik

Hver kannast ekki við að fá tölvupósta sem lofa vinningum, arfi eða tilkynningu um að eitthvað sé bilað og maður þurfi bara að smella á ákveðna slóð til að laga það. Yfirleitt er auðvelt að sjá að um gabb er að ræða þar sem málfarið er ekki eðlilegt enda eru svikararnir oftast erlendir og nota Google translate með misjöfnum árangri.

Margir leikir sem börn og unglingar spila bjóða upp á samskipti við aðra sem spila sama leik. Hættan er því að ókunnugt fólk fái börn til að gera eitthvað sem betur væri ógert.

Íslendingar hafa lent í því að myndum af þeim eru notaðar í ólöglegum tilgangi.

  • Hvað er hægt að gera til að verjast þessu og minnka líkurnar á því að maður verði plataður?
  • Hvað geta kennarar og skólar gert til að gera nemendum grein fyrir þessari hættu?

Á síðunni Netöryggi.is eru góðar ábendingar hvernig varast má svona svindli og hér eru margar vefsíður sem fjalla um margar hliðar netöryggis.

6. Læsi

Maður rekst á ýmislegt á netinu sem maður veit ekki hvort að er satt eða ekki og oft er sannleikurinn lyginni líkastur. Hér eru nánari upplýsingar um falskar fréttir og hvernig hægt er að vinna það viðfangsefni með nemendum.

Margar fréttamyndir eru ekki teknar af blaðamönnum heldur af fólki sem er á staðnum þar sem atburðurinn gerist. Það verður til þess að ekki eru allar fréttamyndir sannar eins og þessi frétt sýnir.

Hvað með upplýsingar á netinu yfirleitt? Bloggsíður og nemendaverkefni eru yfirleitt ekki góðar heimildir þegar nemendur eru í verkefnavinnu og heimildaleit. Hvernig getur þú sem kennari leiðbeint nemendum í þessum málum?

7. Siðferði

„Jailbreaking“ nefnist það þegar átt er við hugbúnað tækis með ólöglegum hætti. Við heyrum stundum sögur af því þegar fólk kaupir ódýra iPhone í USA sem eru læstir á ákveðið símafyrirtæki. Það fær svo einhvern til að „krakka“ hann, þ.e. að aflæsa símanum og montar sig svo af því að hafa komist fram hjá læsingunum. Er þetta í lagi?

Ummæli við fréttir á netmiðlum eru stundum æði skrautleg. Fólk hikar ekki við að vera mjög orðljótt þrátt fyrir að skrifa undir nafni. Er þetta í lagi? Er hægt að breyta þessu og þá hvernig?

Facebook og fleiri hafa skuldbundið sig til að stöðva hatursumræðu á netinu.

Hér er biðlað til fólks að tísta ekki um hvernig sjónvarpsþáttur endar því það er fólk sem á eftir að horfa á hann.

Duldar auglýsingar eru líka til vandræða. Íslenskir “áhrifavaldar” hafa gerst brotlegir við lög eins hér er fjallað um.

Fleiri dæmi um duldar auglýsingar hér.

8. Höfundarréttur

Allir verða að virða höfundarrétt á netinu sem annars staðar. Það er t.d. ólöglegt að gúggla einhverja mynd og nota hana á sína vefsíðu án leyfis. Margar myndir á netinu eru varðar með höfundarleyfi. Hægt er að finna myndir sem má nota að vild í ýmsum myndabönkum.

Einnig er hægt að leita að myndum með frjálsri endurnotkun á Google: Skrifa inn leitarorð – velja Myndir – Leitarverkfæri – Notkunarréttindi – Merkt til endurnotkunar.

Nánari upplýsingar um Creative Commons á íslensku hér.

Fólk hefur mismunandi sýn á hvað höfundarréttur er. Hvernig eiga skólar að nálgast þessa heitu kartöflu?

  • Ef nemendur deila efni sem er óviðeigandi, hvernig á skólinn að bregðast við?
  • Hvaða upplýsingum er rétt að deila á netinu og hvaða ekki? Skipta miðlarnir máli?
  • Hvernig kennum við nemendum að meta gildi upplýsinga á netinu (miðlalæsi)? Hvað eru góðar upplýsingar?

Höfundarréttarmál koma ítrekað upp og sitt sýnist hverjum. „Ég má taka það af því að ég get það“ er viðhorf sem heyrist oft. Píratar hafa verið gagnrýndir fyrir að taka ekki nógu skýra afstöðu í þessu máli en svo lenda Píratar sjálfir í því að mynd af Birgittu Jónsdóttur er notuð án leyfis.

Vissir þú að til skamms tíma þá var afmælissöngurinn „Hann/hún á afmæli í dag“ undir höfundarrétti? Eru fleiri lög sem almenningur notar reglulega sem eru varin höfundarrétti?

Það er hægt að selja tónlist á netinu eins og Adele hefur sýnt og sannað. Milljónir manna vilja borga fyrir sína tónlist. Þetta gildir um heimsfræga söngkonu en hvað með hina sem eru að stíga sín fyrstu spor? Hvað eiga þeir að gera?

Hér er rithöfundur sem stal hugverkum annarra en er hættur því og hvetur aðra að hætta því líka.

Það þarf að upplýsa almenning betur að það telst þjófnaður þegar fólk deilir höfundarvörðu efni og við kennarar verðum að uppfræða okkar nemendur. Þessi mál eru ekki einföld og ekki til eitt rétt svar en við verðum að reyna að finna lausn þannig að listamenn fái greitt fyrir verk sín með réttmætum hætti. Þeir verða að geta lifað af sinni vinnu eins og aðrir.

Ítarefni um höfundarrétt.

9. Öryggi

Notendanöfn og lykilorð fylgja hinum stafræna heimi og lykilorðin þurfa að vera örugg. Samt er vinsælustu lykilorðin „password“ og „1234“. Meira að segja sjálfur eigandi Facebook er ekki með gott lykilorð.

Fólk notar einföld lykilorð því það er gott að muna þau. Hvernig getur þú þjálfað og hjálpað nemendum að eiga góð og örugg lykilorð?

En það er ekki nóg að vera með gott lykilorð ef þú segir öllum frá því. Hakkarinn Ryan Collins þóttist vera starfa fyrir Apple og Google og sendi konum tölvupósta og í raun gabbaði þær til þess að gefa upp notendanöfn og lykilorð og komst þannig yfir persónulegar myndir þeirra.

Svo þarf að gæta þess að fólk á alnafna/nöfnur. Hér er frétt um að Pavel er ekki sama og Pawel.

Prófaðu að gúggla sjálfa(n) þig eða sessunaut þinn og skoðaðu hvort þar megi finna einhverjar upplýsingar sem einhver gæti misnotað t.d. mynd eða ummæli.

Hér eru fleiri síður sem fjalla um netöryggi.

10. Hér er líka hægt að fá hugmyndir að verkefnum.

Að tala við börn um klám – miðstig Ráðleggingar Jafnréttisskóla Reykjavíkur til starfsmanna í skóla- og frístundastarfi og foreldra um hvernig hægt er að ræða klám við börn á miðstigi.

Að tala við börn um klám – unglingastig Ráðleggingar Jafnréttisskóla Reykjavíkur til starfsmanna í skóla- og frístundastarfi og foreldra um hvernig hægt er að ræða klám við börn á unglingastigi.

Ábendingahnappur um ólöglegt og óviðeigandi efni.

Barnaheill eru samtök sem vinna að mannréttindum barna.

Börn og miðlanotkun Handbók ætluð foreldrum barna á grunnskólaaldri. Í henni er fjallað um sjónarmið sem gott er að hafa í huga í tengslum við miðlanotkun barna og ungmenna.

Fræðsla um notkun á fjarfundaforritum Myndband frá Þroskahjálp.

Google kennsluefni Leikur á ensku um netöryggi.

Google Öryggismiðstöð Efni á íslensku um öryggi á netinu.

Hvernig notum við samfélagsmiðla og samskiptaforrit? Myndband frá Þroskahjálp.

Höfundarréttur og Internetið Efni á íslensku um höfundarrétt.

Höfundarréttur á YouTube Leiðbeiningar á íslensku.

Keep children safe online Leiðbeiningar á ensku fyrir foreldra.

Náum áttum er fræðslu- og forvarnahópur sem skipuleggur morgunverðarfundi um ýmis mál er varða forvarnir og velferð barna og ungmenna.

Neteinelti  YouTube rás með myndböndum sem tengjast neteinelti.

Netöryggi.is er vefur á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar. Vefurinn er fyrst og fremst ætlaður almenningi.

Persónuvernd:

SAFT Á þessum vef er að finna heilræði fyrir foreldra og leiðbeiningar um örugga netnotkun barna.

Umboðsmaður barna er opinber talsmaður barna og vinnur að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna.

Tölvuöryggi Námsefni fyrir yngsta- og miðstig sem inniheldur fjórar klípusögur (sem eru lesnar) sem tengjast tölvu og netnotkun ásamt gagnvirkum verkefnum sem tengjast þeim.

Ýmsar slóðir um stafræna borgaravitund Flokkaðar í myndbirtingar, miðlalæsi, falskar fréttir, höfundarréttur, duldar auglýsingar, samfélagsmiðla og fleira.


Uppfært í júní 2022