Hagnýtar upplýsingar fyrir kennara

Allir nemendur í grunnskólum Kópavogs hafa nú aðgang að spjaldtölvu. Yngsta stig hefur aðgang að bekkjarsettum en mið- og unglingastig hafa spjaldtölvu til einkanota. Langflestir kennarar hafa öðlast talsverða reynslu og kunnáttu í notkun tækjanna í námi og kennslu en þróun kennsluhátta heldur áfram og stefnt er að því að kennarar nýti sér tæknina í auknum mæli í starfi sínu á því skólaári sem nú er að hefjast. Allir grunnskólar vinna með Google skýjalausnir og verkfærin þeim tengdum en einnig verður lögð áhersla á öppin Book Creator, Keynote og Explain Everything.

Markmið með spjaldtölvunotkun í Kópavogi

Notkun spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs er fyrst og fremst skólaþróunarverkefni en ekki tækniverkefni. Reynsla íslenskra og erlendra skóla hefur sýnt að spjaldtölvur styðja við þróun kennsluhátta þegar markmiðin eru aukin fjölbreytni og einstaklingsmiðun og áhersla á sköpun, nýsköpun og valdeflingu nemenda. Smelltu hér til að lesa nánar um markmið verkefnisins. Smelltu hér til að lesa ítarlegri framsetningu á hugmyndafræðinni á bak við innleiðingu spjaldtölva í Kópavogi í heftinu Lyklinum.

Ef spjaldtölvan týnist

Í öllum iPad spjaldtölvum er innbyggður staðsetningar- og þjófavarnarbúnaður sem kallast Find my iPad. Ef spjaldtölva týnist getur kennari slegið inn Apple-auðkenni og lykilorð á icloud.com og séð hvar spjaldtölvan er staðsett – ef hún er í netsambandi.

Einnig er hægt að senda boð í spjaldtölvuna sem læsa henni og gera hana þannig ónothæfa fyrir finnanda eða þjóf. Með þessum hætti birtist símanúmer á skjá spjaldtölvunnar sem finnandi er beðinn að hringja í.
Kennari skal ætíð hafa kveikt á Find my iPad.

Stafræn borgaravitund 

Framrás tækninnar hefur verið gríðarlega hröð á undanförnum árum og börn á grunnskólaaldri þurfa að læra að umgangast tæknina. Það er sameiginlegt verkefni foreldra og skóla að búa nemendur undir þátttöku í tæknivæddu þjóðfélagi. Markmið okkar er að grunnskólar Kópavogs útskrifi nemendur sem kunna sig í hinum stafræna heimi. Allir skólar hafa sínar skólareglur og það er ekki þörf á sérstöku regluverki utan um spjaldtölvur frekar en önnur námsgögn. Tilgangur skólareglna er að kenna börnum rétta hegðun og hjálpa þeim ef þau misstíga sig. Það sama á við um spjaldtölvur. Boð og bönn virka sjaldnast betur en opin og heiðarleg samræða sem einkennist af gagnkvæmri virðingu. Þegar spjaldtölvur eru afhentar vinna nemendur að bekkjarsáttmála um notkun spjaldtölvanna. Inni á spjaldtölvuvef Kópavogsbæjar eru verkefni og efni sem gott er að hafa við höndina þegar unnið er með stafræna borgaravitund.

Hvert getur kennari leitað?
Í öllum skólum eru reynslumiklir kennarar sem eru oftast til í að miðla til annarra kennarar og vera þeim innan handar með ráðgjöf og stuðning. Kennsluráðgjafar koma í skólana á ákveðnum tímabilum yfir skólaárið til að styðja við breytta kennsluhætti og sinna ráðgjöf. Einnig er hægt að leita til þeirra á öðru tímum og alltaf í gegnum tölvupóst. Mælt er með að allir kennarar skrái sig inn Workplace grúppuna Spjaldtölvuverkefni grunnskóla – umræður kennara þar sem hægt er að afla sér fróðleiks og skiptast á skoðunum. 

Einnig er hópur á Facebook með sama tilgangi.


Vegna appakaupa er kennurum bent á að hafa samband við tölvumsjónarmann skólans.

Menntabúðir Kópavogs – endurmenntun

Í hverjum mánuði yfir skólaárið eru haldnar menntabúðir sem skólarnir undirbúa til skiptis. Þar hittast kennarar úr öllum grunnskólum Kópavogs og fræðast um upplýsingatækni í skólastarfi og breytta kennsluhætti. Myndin er frá menntabúðum í Kársnesskóla á vordögum 2019 þar sem nemendur og kennarar kynntu saman afrakstur vetrarins. Það voru verkefni sem sýndu hvernig spjaldtölvan er notuð í námi og kennslu.

Hér fyrir neðan má sjá dagsetningar Menntabúða veturinn 2019-20.

Notkunarskilmálar kennara 

1. Spjaldtölvan er eign Kópavogsbæjar. Starfsmaður hefur afnot af henni frá afhendingu og svo lengi sem starfsmaðurinn er í starfi við grunnskóla í Kópavogi. Spjaldtölvan er ekki afhent starfsmanni til eignar og er ekki litið á úthlutun tækisins sem skattskyld laun. Kennari sem hættir störfum í lok skólaárs skal skila spjaldtölvu sinni til skóla eigi síðar en síðasta kennsludag. 

2. Kópavogsbær setur upp á spjaldtölvunni forstillingar sem leyfa nauðsynlega þjónustu, umsýslu og utanumhald. 

3. Öllum starfsmönnum býðst að fá hulstur með spjaldtölvunni til hlífðar. Kjósi starfsmaður að notast við eigið hulstur er það heimilt, en forðast skal að nota spjaldtölvuna án hulsturs. Mælst er til þess að starfsmaður fari gætilega með spjaldtölvuna og verji hana gegn skemmdum og þjófnaði. 

4. Undir engum kringumstæðum má nota spjaldtölvuna á ólöglegan hátt. Ekki má setja í hana stolin forrit eða forrit sem breyta stýrikerfi hennar. 

5. Ef spjaldtölvan bilar eða skemmist þarf að tilkynna það strax til skólans og verður starfsmanni þá úthlutað sambærilegri spjaldtölvu. Það sama á við ef spjaldtölva týnist eða er stolið. 

6. Kópavogsbær annast þjónustu við spjaldtölvuna og skráningu aðgangs hennar að þráðlausri nettengingu í skólanum. Þráðlaust net sem auðkennt er með heitinu Kopavogur er ætlað fyrir spjaldtölvurnar og er starfsmönnum bent á að öðrum nettengingum fylgir ekki full virkni þráðlausa netsins. 

7. Starfsmaður skal jafnan uppfæra stýrikerfi spjaldtölvunnar án tafar þegar nýjar uppfærslur berast. Starfsmanni er skylt að virkja staðsetningarbúnað spjaldtölvunnar og Find my iPad búnaðinn. 

8. Nú færist starfsmaður á milli skóla innan Kópavogsbæjar. Heldur hann þá áfram sömu afnotum af spjaldtölvunni og annast Kópavogsbær tilfærslu á skráningu hennar innan tölvukerfis grunnskólanna. 

9. Nú hættir starfsmaður störfum og skal hann þá skila spjaldtölvunni til síns skóla. Starfsmaður hefur ekki rétt til að halda spjaldtölvu í sumarleyfi eftir starfslok.


Uppfært í ágúst 2019